Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 13:52:14 (3838)

2003-02-13 13:52:14# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[13:52]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu minni þegar ég mælti fyrir frv. fyrr í dag er það vilji minn og klár stefna að um allt land geti tveggja megabæta háhraðasamband verið til allra staða. Ég tel að það sé framtíðin og það tengist m.a. uppbyggingu þess kerfis sem lýtur að stafrænni sjónvarpsþjónustu.

Hvað varðar það sem hv. þm. nefndi um uppbyggingu á gagnaflutningatengingum inn á norðaustursvæðið liggur fyrir að verið er að vinna að henni. Ég nefndi hér sérstaklega fyrr í dag að ég legg á það áherslu og get lýst því sem vilja mínum að það á að byggja þetta kerfi upp miðað við að geta veitt þá þjónustu sem hv. þm. nefndi.

Það er mjög athyglisvert að um þessar mundir er búið að semja um svokallað FS-net sem á að tengja saman alla framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar í landinu, samtals yfir 60 staði, með 100 megabæta samböndum, og þar á meðal er Kópasker. Við stefnum inn í algerlega nýja veröld. Þetta er klár vilji stjórnvalda og þetta er kostað af ríkissjóði í gegnum menntakerfið þannig að þessar stofnanir munu tengjast með þessum hætti og það mun síðan leiða til þess að í þessum byggðum skapist slíkur þjónustumöguleiki. Þegar búið er að tengja menntamiðstöðvarnar með þessum hætti skapast aðstæður til þess að veita öðrum sömu þjónustuna.