Póst- og fjarskiptastofnun

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 14:10:47 (3841)

2003-02-13 14:10:47# 128. lþ. 79.3 fundur 600. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (heildarlög, EES-reglur) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hæstv. samgrh. hefur fylgt hér úr hlaði um Póst- og fjarskiptastofnun er náttúrlega í sjálfu sér svipuð breyting og gerð var á frv. sem við ræddum hér rétt áðan um fjarskipti. Verið er að breyta lögum sem eru ekki mjög gömul, þ.e. lögum nr. 110/1999. Eins og fram hefur komið tók Póst- og fjarskiptastofnun við 1. apríl 1997 og hefur þar stjórnsýsluhlutverk sem Alþingi hefur falið henni að vinna á þessum nýja markaði, og sannarlega var ekki vanþörf á að setja þetta undir sérstaka stofnun miðað við þær miklu breytingar og byltingar sem hafa átt sér stað á sviði þessa heims.

Það þarf ekki að hafa langt mál um þetta frv., herra forseti, mér sýnast bara sjálfsagðir hlutir hafa verið settir inn, en hef náttúrlega alltaf þessa venjubundnu fyrirvara á því að e.t.v. vantar eitthvað og yfir það verður farið í hv. samgn.

Það eru þó nokkur atriði sem koma hér inn sem er vert að hafa í huga, sem við þurfum að ræða um vegna þess að þessi þróun hefur verið á fleygiferð. Það er nauðsynlegt að hún gagnist öllum landsmönnum og það sé jafnrétti í þessum málum eins og svo mörgum öðrum, með öðrum orðum að landsbyggðarbúar sitji ekki eftir í þessari þróun sem geri það þá að verkum að samkeppnishæfni, hvort sem er einstaklinga eða fyrirtækja á landsbyggðinni, skerðist við það að taka ekki þátt og hafa ekki aðstöðu eða tækifæri til að taka þátt í þessari ,,samgöngubyltingu`` sem við erum hér að ræða um, þ.e. þeirri byltingu sem hefur átt sér stað á sviði fjarskipta.

Eins og fram kemur í 3. gr. frv. er það meðal verkefna Póst- og fjarskiptastofnunar að annast framkvæmd laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu og hafa eftirlit með fjarskiptum og póstþjónustu. Þetta er allt góðra gjalda vert. Og í 2. tölul. segir: ,,Að stuðla að samkeppni á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti með því m.a. að:`` og svo er talið upp.

Þó að ekki séu liðin nema þrjú, fjögur ár síðan mesta umræðan var um þetta og þessir ólögmætu viðskiptahættir heyri vonandi sögunni til er það sem gerst hefur á þessum árum náttúrlega þvílík bylting og krafa markaðarins það mikil að sem betur fer kemst bara ekkert eitt fyrirtæki upp með það lengur að beita óréttmætum viðskiptaháttum í starfsemi sinni til þess að hamla eða koma í veg fyrir að aðrir skjóti rótum og tefji þar eða hefti samkeppni sem á að koma notendum til góða eins og við höfum hér rætt um.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu eða fara aftur í þessi gömlu mál sem ég vildi óska að heyrðu fortíðinni til. En upp í huga manns kemur hins vegar það sem ég ræddi hér áðan um fjarskipti, áhyggjur margra aðila á þessum árum um yfirburðastöðu Landssímans á þessu sviði, þar sem menn sögðu í umsögnum að beitt væri ólögmætum viðskiptaháttum á þessu sviði. Og það sem ég vildi bara nefna nú er umræðan um gjaldskrá fyrir hina gömlu koparlínu eða heimtaugarnar sem margir hafa gagnrýnt Landssímann fyrir að halda allt of háu verði uppi fyrir enda eru koparlínurnar löngu afskrifaðar. Póst- og fjarskiptastofnun hefur á undanförnum árum gengið eftir því að fá upplýsingar frá Landssímanum um verðlagninguna og hefur síðan samþykkt gjaldskrána. Einhvern tíma var bara verið að diskútera nokkrar krónur.

[14:15]

Herra forseti. Vonandi er það svo að árið 2003, þótt við séum að ræða ný lög um Póst- og fjarskiptastofnun, heyri þetta allt saman fortíðinni til. Vonandi munu þá engir komast upp með að beita markaðsyfirráðum sínum til þess að hamla samkeppni eða koma í veg fyrir að aðrir skjóti rótum eða beita óréttmætum viðskiptaháttum gagnvart öðrum aðilum sem eru að fóta sig.

Herra forseti. Ég hef gert að umtalsefni nokkur verkefni sem Póst- og fjarskiptastofnun er falið samkvæmt þessu frv. Í 4. tölul. 3. gr. er fjallað um að Póst- og fjarskiptastofnun skuli gæta hagsmuna almennings. Svo kemur upptalning og í staflið a kemur strax fram nokkuð sem ég er ákaflega sáttur við og ánægður með. Maður getur hins vegar alltaf spurt sig um hvernig komi til með að ganga að uppfylla þetta skilyrði. Verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar eru, með leyfi forseta:

,,Að gæta hagsmuna almennings með því m.a. að:

a. vinna að því að allir landsmenn eigi aðgang að alþjónustu.``

Þannig er þetta náttúrlega gert. Eins og ég sagði áðan í umræðu um frv. til laga um fjarskipti, nýju lögin, þá hafa kröfurnar breyst. Á nokkrum árum sem liðin eru frá því að sett var fram krafa um alþjónustu eru ISDN-tengingarnar í raun orðnar úrelt dæmi. Þeir sem eru með ISDN-þjónustu, mig minnir að hafi komið fram hjá hæstv. ráðherra að 98% landsmanna eigi kost á því, eru á fleygiferð að ná sér í ADSL. Það er ekki gott fyrir samkeppnisstöðu fyrirtækjanna að hafa ekki upp á þessar tengingar að bjóða, að maður tali ekki um fjölmarga einstaklinga og heimili sem vilja hafa þennan möguleika líka. Um það var lítils háttar rætt hér áðan.

Inn í þetta blandast síðan þættir sem við vorum að ræða um áðan varðandi fjarskiptaþjónustuna. Ég vil fara aðeins yfir á bls. 10 í þessu frv. þar sem fjallað er um skýringar, athugasemdir með þessum greinum:

,,Í 4. tölul. er getið verkefna sem snerta hagsmuni almennings. Póst- og fjarskiptastofnun skal gæta hagsmuna almennings með því að vinna að því að allir landsmenn sem þess óska fái aðgang að alþjónustu, stuðla að vernd neytenda gagnvart fjarskiptafyrirtækjum og póstrekendum, leggja lið ráðstöfunum sem gerðar eru til að vernda persónuupplýsingar ...``

Þetta er allt gott og góðra gjalda vert. En í 23. gr. frv. til laga um fjarskipti þar sem fjallað er um þetta er talað um sértæka fjarskiptaþjónustu. Ég ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins upp úr þeirri grein vegna þess að þetta fléttast töluvert saman, með leyfi forseta. Í frv. sem var hér áðan á dagskrá er 23. gr. um sértæka fjarskiptaþjónustu. Hún er svohljóðandi:

,,Nú óskar samgönguráðherra eftir því að lagt sé í framkvæmdir, rekstur eða þjónustu sem er til almannaheilla, í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum, og ætla má að skili ekki arði, án þess þó að um alþjónustu sé að ræða, og skal Póst- og fjarskiptastofnun þá falið að gera um slíkt samning við fjarskiptafyrirtæki í kjölfar útboðs.

Kostnaður sem rekja má til ákvarðana samgönguráðherra skv. 1. mgr. skal að jafnaði greiddur úr ríkissjóði, eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.``

Þetta ákvæði finnst mér ákaflega mikilvægt að hafa þarna inni. En það er ekki nóg að hafa þetta ákvæði í lögum ef ekki er farið eftir því. Ég vildi því leiða umræðuna að því aftur sem við vorum að ræða hér áðan, þ.e. norðausturhorninu og hvernig íbúum þess svæðis er sinnt með hliðsjón af þeim þáttum sem við erum hér að ræða. Það er spurning hvort þessi 23. gr. eigi ekki að koma inn í þetta frv. Ég ítreka það sem ég spurði um áðan, þ.e. hvaða áætlanir væru uppi um að flýta ljósleiðaralagningu frá Lundi að Kópaskeri, þessa tæplega 26 km sem þar eru. Talað er um að það kosti 26 millj. kr. En eru það svo stórar upphæðir í þessum efnum?

Vegna þess sem fram kom í andsvari hæstv. samgrh. áðan í umræðum um þetta, að þeir hafi örbylgjusamband, þá er það ekki nægjanlegt. Það er ekki nægjanlegt. Þetta er hægt að leysa með því að leggja þangað ljósleiðarann sem liggur rétt hjá þessu kauptúni. Eins og fram kemur í skýrslunni sem ég vitnaði til áðan, þ.e. skýrslu starfshóps um kostnað við gagnaflutninga og eflingu fjarskipta á Íslandi, kemur þetta fram. Við sjáum þar á mynd hvernig þetta er gert með örbylgjusambandi. Ég vænti þess að hæstv. samgrh. fái svar við þessum þáttum og gefi okkur hér skýlaus svör um hvernig eigi að gera þetta.

Það getur vel verið að margir hverjir á höfuðborgarsvæðinu, e.t.v. margir þingmenn, líti svo á að þetta sé svo lítið svæði og þar búi svo fáir að það taki því jafnvel ekki að leggja ljósleiðara þangað. Ég mótmæli því harðlega. Auðvitað verður þetta kauptún og aðrir staðir í næsta nágrenni að sitja við sama borð og aðrir.

Í þessu efni ætla ég aðeins að nefna eitt atriði. Á Kópaskeri eru höfuðstöðvar Fræþings, Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga. Þetta er eina fræðslumiðstöðin sem var undanskilin í samningi Skýrsluvéla ríkisins við fræðslumiðstöðvar um sambandið sem allar aðrar fræðslumiðstöðvar á landinu hafa. Þetta er mjög alvarlegt mál. Þarna var ekki hægt að skila nema tveggja megabæta sambandi meðan aðrar hafa 100 megabæta samband.

Það hlýtur auðvitað að vera þannig, ef íbúar á þessu landsvæði komast að þeirri góðu niðurstöðu, að höfuðstöðvar þessarar stofnunar skuli vera á Kópaskeri fyrir hönd alls svæðisins, að opinberar aðgerðir eða aðgerðaleysi komi ekki í veg fyrir að slík miðstöð geti þrifist. Þetta er mikilvægt mál sem ég vildi leggja inn í þessa umræðu.

Við skulum líka hafa í huga, herra forseti, að Kópasker er töluvert stórt nafn hvað varðar internetsamband og alla þá fjarskiptabyltingu sem átt hefur sér stað. Við skulum hafa það í huga. Þar var frumkvöðullinn Pétur Þorsteinsson sem stofnaði og kom á fót Íslenska menntanetinu. Þar var lagður grundvöllurinn að tengingu skóla við internetið. Ég vil ekki trúa því, herra forseti, að þannig sé komið fyrir hæstv. ríkisstjórn og hæstv. samgrh. að ekki sé hægt að beita þeim lögum sem ég hef hér vitnað í, 23. gr. fjarskiptafrv., þar sem fjallað er um að samgrh. geti óskað eftir því við fyrirtæki að ljósleiðari verði lagður í nafni byggðasjónarmiða og kostnaður greiddur úr ríkissjóði, hvort sem það fer um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga eða hvaða leið verður valin. Ég vil ekki trúa því að þetta verði látið stranda á þessum atriðum.

Það er þetta atriði, herra forseti, sem ég vildi enn einu sinni impra á og óska eftir svörum hæstv. samgrh. um: Hvernig og hvenær mega íbúar á þessu landsvæði búast við að fá ljósleiðaratengingu til sín, þessa 26 km? Þó að þjónustan sé veitt í dag með örbylgjusambandi eins og hæstv. ráðherra gat um áðan er það ekki fullnægjandi lausn. Það er ekki varanleg lausn. (Samgrh.: Að mati hverra?) Að mati hverra? (Samgrh.: Að mati hverra er þetta ekki fullnægjandi lausn?) Ég held ég hafi tekið það hérna skýrt fram áðan. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi verið að leita sér upplýsinga um þetta mál en við skulum bara fara aftur yfir það. (Samgrh.: Ég heyrði alla ræðu þingmannsins og bið ekki um hana aftur.) Mér heyrðist hæstv. ráðherra spyrja að mati hverra ástandið væri ófullnægjandi. Það er mat þeirra sem stjórna Fræþingi. Að þeirra mati er ekki hægt að una við að þetta sé eina fræðslumiðstöðin sem tekin var út úr þeim samningi sem ég gat um áðan. Það er ekki fullnægjandi, herra forseti. Þó að þetta nægi jafnvel að mati örfárra aðila þá er það ekki fullnægjandi eins og þetta er gert hér í dag.

Við erum að tala um hvenær þetta verði gert. Ég er að vitna í 23. gr. frv. um fjarskipti sem heimilar samgrh. að leggja fé í framkvæmdir eða rekstur, m.a. vegna byggðasjónarmiða. Út frá því mætti leggja slíka línu sem ekki er talið að skili arði, eneins og greinin fjallar um væri hægt að gera þetta á þennan hátt.

Það er þetta, herra forseti, sem ég vildi koma að í þessari umræðu vegna þess að þetta skarast töluvert. Að öðru leyti vil ég segja að frv. sem við erum að ræða um, þ.e. frv. til nýrra laga um Póst- og fjarskiptastofnun sem mér sýnist í fljótu bragði ekki eiga að taka langan tíma að renna í gegnum þingið vegna þess að mér sýnist um sjálfsagða hreingerningu, ef svo má að orði komast, á gömlu lögunum að ræða, er að færast í átt til þess sem tilskipanir Evrópusambandsins og EFTA geta. Mér virðist það færast til betri vegar.

Hitt atriðið, herra forseti, vildi ég leggja áherslu á vegna þess að auðvitað blandast inn í þetta skýrsla sem ég hef vitnað í og menn hafa verið að tala um. Ég ætla svo sem ekki að lengja umræðuna mikið með því að ræða um hana eða með því að fara inn í jafnsjálfsagt mál og jöfnunargjöld og hvernig sumir íbúar á þessu landi greiða meira fyrir þessa þjónustu en aðrir. Það fer bara eftir hvar þeir eru miðað við einhverja ákveðna punkta.

Ég ætla aðeins í lokin að vitna í áðurnefnda skýrslu um kostnað við gagnaflutninga og fjalla um það sem þar kemur fram um opinberar stofnanir. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ófullkomnar upplýsingar liggja fyrir um nethögun, afkastagetu og kostnað vegna nettenginga framhaldsskóla og símenntunarstöðva inn á internetið. Hins vegar má draga ákveðnar ályktanir af þeim upplýsingum sem tiltækar eru. Allir framhaldsskólar og símenntunarmiðstöðvar tengjast nú internetinu.`` --- Ég ætla að vísu að hafa þann fyrirvara sem ég nefndi með símenntunarmiðstöðina og fræðslumiðstöðina á Kópaskeri.

,,Almennt eru skólar á Reykjavíkursvæðinu betur tengdir en skólar annars staðar. Á Akureyri njóta framhaldsskólarnir Háskólans á Akureyri í þessum efnum. Allmargir skólar tengjast internetinu yfir örbylgjunet, frá 256 kb/s og allt að 2 Mb/s, og kvarta þeir undan breytilegri burðargetu. Verslunarskóli Íslands stendur upp úr með 10 Mb/s tengingu og er eini skólinn með meira en 2 Mb/s. Framhaldsskólinn á Laugum rekur lestina með aðeins 64 kb/s.`` (Samgrh.: Þá.)

Vel kann að vera að sú skýrsla sem hér er komin fram, sem ég man ekki hvaða dagsetning var á, (Samgrh.: Hún er ársgömul.) sé orðin úrelt. Það væri óskandi að svo væri. En þetta er atriði, herra forseti, sem vert er að skoða. Enn fremur segir hér um grunnskóla, með leyfi forseta:

,,Grunnskólar njóta mismunandi sambands við internetið. Grunnskólar í Reykjavík eru almennt vel tengdir en mikið vantar á að grunnskólar á landsbyggðinni njóti viðunandi fjarskiptaþjónustu.``

Herra forseti. Skýrslan sem ég hef hér verið að vitna í kom út á vegum samgrn. í apríl 2002, eins og hér stendur, segir allt um þetta. Það væri óskandi, herra forseti, að í þessari fjarskiptabyltingu og þeirri byltingu sem hefur átt sér stað á þessu sviði legg ég ríka áherslu á verði hlutur landsbyggðarinnar ekki lakari. Ég fagna þróuninni auðvitað og tel að hún sýni hve framarlega við Íslendingar stöndum við að taka upp nýjungar, eins og ég hef verið að ræða um. En ég vil jafnframt ítreka og óska eftir því að á þessu sviði sem öðrum verði íbúum landsins ekki mismunað eftir því hvar þeir búa á landinu, hvort þeir búa á landsbyggðinni eða í Reykjavík, á Kópaskeri eða í Kópavogi. Í þessu tilfelli eiga þeir að njóta jafnréttis til þessarar þjónustu sem ríkið á að standa undir.