Póst- og fjarskiptastofnun

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 14:29:02 (3842)

2003-02-13 14:29:02# 128. lþ. 79.3 fundur 600. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[14:29]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hér er alveg ótrúlegur málflutningur á ferðinni. Ef hv. þm. grunar að búið sé að bæta verulega úr þá les hann upp úr ársgamalli skýrslu til að reyna að koma inn hjá áheyrendum að hlutirnir séu ekki í lagi. Þessi skýrsla vakti mikla athygli á sínum tíma og varð m.a. til þess að hert var á uppbyggingunni og þessari þróun til hagsbóta fyrir þá sem nýta fjarskiptin. Þannig var hv. þm. að lesa upp ársgamla lýsingu á hlutum sem hafa gengið í framfaraátt og sem skipta miklu máli.

Ég ætla aðeins að nefna hins vegar að hv. þm. talaði um að heimtaugin hjá Landssímanum væri of hátt verðlögð og Póst- og fjarskiptastofnun ætti að koma þar til skjalanna.

[14:30]

Það er rétt, Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með fjarskiptamarkaðnum.

En eitt af þeim grundvallaratriðum til að reyna að tryggja samkeppni við Símann er að Síminn komist ekki upp með að lækka verðið á þjónustu um heimtaugina. Síminn er með sínar afskrifuðu heimtaugar og getur þess vegna haldið verði niðri. Þess vegna er þetta regluverk sett upp um sérstaka aðferðafræði í verðlagningu á heimtauginni. Það er í þágu neytenda og það er í þágu samkeppni að hafa reglur um það að markaðsráðandi fyrirtæki færi ekki niður verðið á heimtauginni. Þetta er mjög mikilvægt atriði.

Aðeins út af háhraðatengingunum. Það er staðreynd hvað varðar Kópasker og norðausturhornið að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá Landssímanum er ekkert fyrirtæki sem ekki fær þá þjónustu, fær ekki þau afköst sem fyrirtækin telja sig þurfa að fá. Það er stefnt að 100 megabæta sambandi fyrir fræðslumiðstöðvarnar allar, auðvitað tekur það einhvern tíma, en gert er ráð fyrir því í samningunum.