Póst- og fjarskiptastofnun

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 14:31:35 (3843)

2003-02-13 14:31:35# 128. lþ. 79.3 fundur 600. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (heildarlög, EES-reglur) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki blandað mér inn í þá umræðu að þessi skýrsla sem ég hef hér gert að umtalsefni frá apríl 2002 sé öll orðin úrelt, það væri óskandi að svo væri. En þetta er nú það nýjasta sem við, a.m.k. fulltrúar í samgn., höfum séð um þetta atriði.

Í sambandi við það sem rætt var um varðandi tengingu við þann stað sem við höfum gert að umtalsefni, þ.e. Kópasker, liggur það ljóst fyrir, og það var gott að það kom fram í lokin hjá hæstv. samgrh., að stefnt sé að því að þessi fræðslumiðstöð hafi jafngóða tengingu og aðrar fræðslumiðstöðvar á landinu, þ.e. við erum að tala um er Fræþing. Við skulum hafa það í huga að þetta er eina stöðin sem tekin var út fyrir í þessum samningi og ekki var hægt að uppfylla það samband sem hæstv. ráðherra nefndi að allir aðrir hefðu. Það er gott ef kippa á því í liðinn.

En ég spyr: Hvenær verður það? Að mínu mati verður það ekki gert almennilega fyrr en ljósleiðarinn verður lagður frá Lundi að Kópaskeri, þessa 26 km, með þeim skilyrðum sem ráðherra hefur heimild til að gefa ,,ordrur`` um að skuli vera gert. Ef til vill telur Landssíminn sig ekki hafa nógu mikinn bisness í því að leggja hann núna og þá þarf að koma til þeirra ákvæða sem eru í þeim lögum sem ég gat hér um. Hæstv. samgrh. hefur vald til að gefa fyrirskipun um að þessi tenging verði innt af hendi. Og við skulum vona, guð láti gott á vita ef það verður þá núna á næstunni, að sú tenging verði innt af hendi sem allra fyrst. Það er ljóst að þetta hamlar þeirri starfsemi sem ég hef gert að umtalsefni.