Tryggur lágmarkslífeyrir

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:42:31 (3855)

2003-02-13 15:42:31# 128. lþ. 79.7 fundur 225. mál: #A tryggur lágmarkslífeyrir# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Vandinn er sá að hv. þm. er að biðja um skattahækkun. Hann er að biðja um skattahækkun vegna þess að þær bætur sem hann vill auka verður að greiða einhvern veginn og þær eru greiddar af launþegum landsins. Þær eru greiddar af sjómönnum, landverkafólki, verkamönnum og iðnaðarmönnum, þær eru greiddar af öllum borgurum þessa lands. Og mér skilst að menn séu ekkert voðalega hrifnir af því hvað skattarnir eru miklir. Ef við hækkum t.d. bætur almannatrygginga um 10 þús. kall á hvern mann á mánuði, þá eru það 100 þús. kr. á ári, rúmlega. Það eru 30 þúsund bótaþegar og það hægt er að reikna út að það mundu vera 3 milljarðar sem þetta mundi kosta. Það þýðir bara skattahækkun sem því nemur þannig að þeir sem eru að biðja um að bæta stöðu lífeyrisþega og annarra, sem ég er alveg sammála að þyrfti að skoða, eru í rauninni að biðja um skattahækkun. Þarna þarf að finna hinn gullna meðalveg milli þess að leggja miklar álögur t.d. á barnafólk, fólk sem er að koma yfir sig húsnæði og fólk sem stendur í atvinnurekstri, á móti hinu að lífeyrisþegar hafi það viðunandi og gott í ellinni.