Tryggur lágmarkslífeyrir

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:44:06 (3856)

2003-02-13 15:44:06# 128. lþ. 79.7 fundur 225. mál: #A tryggur lágmarkslífeyrir# þál., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:44]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í annarri ræðu minni um þetta mál en vil almennt segja að ég lít ekki svo á að það sé vandamál að fólk hafi tekjur sér til framfærslu. Ég lít svo á, herra forseti, að vandamálið felist í því að fólk hafi of litlar tekjur sér til framfærslu og í skattahugsuninni eigi að vera innbyggð sú hugsun að fólk hafi tekjur og því séu tryggðar lágmarkstekjur sem geti gert því kleift að framfleyta sér. Ég hygg, herra forseti, að flestallir telji að tekjur undir 120--130 þús. kr. á mánuði séu algert lágmark sem þarf til þess að fólki geti lifað sæmilegu og mannsæmandi lífi og þá er ég að tala um að fólk geti veitt sér eitthvað pínulítið meira en bara akkúrat nauðþurftirnar í mat. Það geti leyft sér að fara í bíó, það geti leyft sér að fara einu sinni í mánuði í leikhús og það geti notið einhverrar þeirrar þjónustu sem þjóðfélagið býður upp á. Erum við ekki að greiða stórar fjárfúlgur með því að halda úti þjóðleikhúsi? Erum við ekki að greiða stórar fjárfúlgur með því að halda úti sinfóníuhljómsveit? Er það bara fyrir þá efnuðu? Erum við ekki að greiða það til að reyna að halda niðri kostnaði við þessar stofnanir til að fólk eigi almennt einhvern kost á því að njóta þeirra, líka þeir sem hafa lág laun? Ég tel að það eigi að horfa á skattadæmið út frá þeirri hugsun að fólk eigi að hafa nægilegar tekjur sér til lágmarksframfærslu og menn eigi að setja sér það sem markmið en ekki að horfa alltaf á hina hliðina hvernig þurfi svo að breyta skattkerfinu til þess að þau markmið geti náðst.

Því miður var ríkisstjórnin að lækka hátekjuskattinn á sama tíma og það hefði verið miklu nær að hækka persónuafsláttinn gagnvart láglaunafólkinu. En þetta eru áherslurnar í skattamálunum og við erum greinilega ósammála um það, ég og hv. þm. Pétur Blöndal, hvernig þessi hugsun eigi að vera. Ég tel að horfa eigi á það hvaða tekjur fólk þurfi að hafa til að komast af og miða skattleysismörkin við það. Og það er örugglega fyrir ofan það sem er í dag sem það þarf að vera til þess að fólk geti komist skikkanlega af.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál en lýsi því yfir að ég tel að við eigum að leggja okkur fram um það í hv. Alþingi að finna leiðir sem tryggja það að fólk hafi lágmarksafkomu og lágmarkstekjutryggingu.