Tryggur lágmarkslífeyrir

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:48:52 (3858)

2003-02-13 15:48:52# 128. lþ. 79.7 fundur 225. mál: #A tryggur lágmarkslífeyrir# þál., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:48]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er sennilega rétt hjá hv. ræðumanni Pétri Blöndal að guð almáttugur borgar þetta ekki. Hann tekur við okkur þegar við erum búin að njóta þessara lífsins gæða hér á jörð og komin undir græna torfu, vonandi öllum, hvaða skoðanir sem við höfum.

Hv. þm. Pétur Blöndal vék að því að á Norðurlöndum væru miklu lægri skattprósentur. Ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal veit nokkurn veginn hvernig skattkerfin á Norðurlöndunum eru uppbyggð. Ég er alveg viss um að honum er einnig kunnugt um marga frádráttarliði í skattkerfum Norðurlandanna sem við erum ekki með hér, þar sem fólk má draga frá bifreiðakostnað og notkun bifreiðarinnar í eigin þágu. Svo eru ýmsir aðrir liðir sem menn mega draga frá sem við erum ekki með inni í frádrættinum hér, nema þá eins og við, ég og hv. þm., sem njótum þess að fá greiddar bætur frá ríkinu til að ferðast í okkar vinnu. Við megum náttúrlega færa kostnað á móti því. Ég veit að hv. þm. veit þetta þó að hann nefni eingöngu lægri skattprósentu en gleymi að tala um frádráttarliði sem eru annars staðar til staðar.