Tryggur lágmarkslífeyrir

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:52:09 (3860)

2003-02-13 15:52:09# 128. lþ. 79.7 fundur 225. mál: #A tryggur lágmarkslífeyrir# þál., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég á mér draum. Ég á mér þann draum að við getum búið í landi þar sem menn almennt geta haft það þokkalega gott, líka þeir sem eru ellilífeyrisþegar og öryrkjar, þar sem fólk getur lifað nokkurn veginn mannsæmandi lífi af lágmarkstekjunum og að við hin sem erum fullvinnandi í þjóðfélaginu tökum að okkur að tryggja það.

Ég á mér líka þann draum að þjóðfélagið okkar hverfi frá misheppnuðum stjórnunarleiðum eins og stjórn fiskveiða sem eru að leggja byggðina í rúst. Mér finnst mjög gott að eiga mér draum um að þjóðfélagið geti batnað og þori alveg að tala fyrir því, herra forseti.

Ég verð að lýsa því yfir, herra forseti, að ég er ekki sammála þeirri hugsun hv. þingmanns að taka upp flatan 20% tekjuskatt sem allir borguðu. Á þá maðurinn með 70 þús. kr. að borga 20% flatan tekjuskatt? Er það hugsunin í dæminu? Hvernig á hann þá að komast af?

Ég verð bara að viðurkenna það, herra forseti, að ég skil ekki þessa framsetningu, hvernig fólk á að komast af ef allir eiga að borga flatan 20% tekjuskatt, sama hvaða tekjur þeir eru með.