Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 16:38:24 (3865)

2003-02-13 16:38:24# 128. lþ. 79.11 fundur 298. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[16:38]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gengur út frá því að atvinnurekendur ráði fólk í vinnu út frá öðrum sjónarmiðum en að njóta vinnukrafts fólksins. Góður starfsmaður fær vinnu hvort sem hann vill vera í stéttarfélagi eða ekki. Það sem gæti komið upp ef mikið misræmi yrði á vinnumarkaði, þ.e. atvinnuleysi, mikið atvinnuleysi eða of lítið atvinnuleysi, þegar mismunur myndast, þá getur vel verið að menn fari að beita einhverjum öðrum kröfum á launþega en að þeir skili góðri vinnu.

Hv. þm. skildi ekki af hverju ekki er hægt að skikka menn í eitthvert félag, af hverju þeir ættu að geta valið sér félag. Það er bara einu sinni þannig, herra forseti, að það er stjórnarskrárbundið og við hv. þm. höfum svarið eið að henni. Og ef maður er ekki sáttur við hana, þá verður að vinna að því að breyta henni og setja inn í hana að öllum launþegum sé skylt að vera í viðkomandi stéttarfélagi, ef menn ná því í gegn. Við verðum að beygja okkur undir vald stjórnarskrárinnar. Hún segir: Það má ekki skikka fólk í stéttarfélag. Ég get vel ímyndað mér að núna sérstaklega á síðustu dögum fyrir kosningar líki mörgum opinberum starfsmönnum það illa að formaður þeirra félags skuli vera á fullu í stjórnmálabaráttu og það félag hafi verið notað til að koma með fulltrúa erlendis frá sem tala gegn einkavæðingu t.d., sem félagsmenn BSRB eru ekkert endilega á móti að einkavæða. Það hefur margt annað komið fram frá BSRB sem er mjög pólitískt og það er ekki víst að allir opinberir starfsmenn séu í flokki hv. þm. og vilji endilega að hann sé að vasast í pólitík með félagsgjöldum þeirra. En þeir eru skyldaðir samt sem áður til þess að borga í þessi stéttarfélög hvort sem þeir vilja eða ekki og þeir eru skyldaðir til þess að styðja þessa baráttu.