Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 16:42:47 (3867)

2003-02-13 16:42:47# 128. lþ. 79.11 fundur 298. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[16:42]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Gott er að það kom fram að hv. þm. lítur á það sem skyldu að borga í stéttarfélag eða vera í stéttarfélagi óbeint. En ég vil spyrja hv. þm. hvort þetta gjald, þessi skattur sem ég kalla, hvort þetta sé þjónustugjald eða hvort þetta sé skattur. Ef þetta er þjónustugjald, af hverju borga menn þá tvöfalt meira til stéttarfélagsins sem semur um tvöfalt hærri laun? Segjum að stéttarfélag semji um 300 þús. kr. laun. Er það þá tvöfalt dýrara að semja um þau en að semja um 150 þús. kr. laun?

Svo vil ég líka segja að eftir að þetta var sett í lög og skylt að greiða til stéttarfélaga almennt og farið að innheimta það beint frá atvinnurekendunum, þá breyttist samband stéttarfélaganna við félagsmenn sína. Síðan þá heyrir maður mjög mikið um það að launþegar líta á félagsgjaldið sem eins konar skatt. Þeir verði að borga, fái ekkert fyrir og hafi engan skilning á félagsgjaldinu og samband stéttarfélaganna við félagsmenn sína er nánast að rofna þannig að ég held að þetta skaði stéttarfélögin og samtök þeirra allverulega.

Svo segir hv. þm. að félagið skapi þau kjör sem maðurinn nýtur. Ég veit ekki betur en þessi kjör séu komin í lög og það sé hlutverk hv. þingmanna á Alþingi að setja þjóðfélaginu lagaramma t.d. um starfskjör og annað slíkt, uppsagnarfresti, fæðingarorlof o.s.frv. Ég sé því ekki að stéttarfélögin hafi lengur þetta hlutverk. Það er Alþingi sem hefur það.

Varðandi völdin og peningana, það er dálítið yndislegt að tala um það því að mestu peningarnir í landinu eru hjá lífeyrissjóðunum sem stéttarfélögin stjórna að helmingi a.m.k. og þar eru völdin. Það eru lífeyrissjóðirnir sem meira og minna stýra atvinnulífi landsmanna og er þetta fjármagn sem stéttarfélögin eiga svo að berjast við. Það er undarleg barátta að berjast við sjálfan sig.