Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 16:50:13 (3870)

2003-02-13 16:50:13# 128. lþ. 79.11 fundur 298. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[16:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér litist afskaplega illa á það ef öll launin yrðu látin renna til félagsins. (PHB: Þetta er möguleiki.) Þetta er möguleiki, 50% eða 100%. Finnst hv. þingmanni þetta mjög málefnalegt innlegg? (PHB: Já.) Þetta eru ákvarðanir. Ákvarðanir um félagsgjöld eru teknar af lýðræðislega kjörnum fulltrúum starfsmanna (PHB: En ef maðurinn er ekki í félaginu?) og þeir reyna að sjálfsögðu að leita hófs og sanngirni vegna þess að þeir eru að leggja gjöld á sig sjálfa. Það er gert samkvæmt því sem menn telja að þurfi til að standa straum af kostnaði við félagsskapinn. Þegar á heildina er litið renna þessir fjármunir í réttindabaráttu starfsmanna. Ég leyfi mér að fullyrða að þrátt fyrir reynslu hv. þm. Péturs H. Blöndals frá Kaupþingsárum sínum ... (PHB: Kaupþingsárum?) Var þetta ekki á Kaupþingsárunum? (PHB: Nei, nei.) Hv. þm. hefur gjarnan verið mjög ákafur að reyna að grafa undan lífeyrissjóðunum og koma lífeyrissparnaði út á frjálsan markað og mér finnst svolítið undarlegt hvað hann er --- kannski á maður að óska honum til hamingju fyrir staðfestuna --- hve duglegur hann er að reyna að grafa undan félagslegum sjóðum og reyna að koma öllum sem einstaklingum án samstöðu inn á fjármagnsmarkað.

Ég held að þetta svari spurningunum.