Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 16:51:58 (3871)

2003-02-13 16:51:58# 128. lþ. 79.11 fundur 298. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[16:51]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk ekki svar við því hvort þetta væri skattur eða þjónustugjald. Það er grundvallaratriði. Ef þetta er þjónustugjald fer maður að spyrja sig hvort sú þjónusta sem maðurinn fær sé í samræmi við gjaldið og hvort það sé einhver sem gætir þess að þjónustan verði ekki of dýr.

Hv. þm. sagði að þessir fjármunir rynnu til réttindabaráttu. Nei, þeir renna til launa á skrifstofu viðkomandi fyrirtækis, stéttarfélags. Þangað renna þeir. E.t.v. starfar fólkið svo að réttindabaráttu eða einhverju öðru en það er í rauninni ekkert kostnaðareftirlit með því. Það er einhver félagsfundur sem ákveður þetta, gott og vel, en segjum að maðurinn sé ekki í félaginu, þá hefur hann engin áhrif á hve hátt gjaldið er. Mér er kunnugt um að gjaldið er mjög mismunandi og í sumum félögum er það upp í 1,75% af launum, að mér skilst, af öllum launum alveg niður í 50 þús. kall þannig að jafnvel maður sem er með 50 þús. kr. á mánuði þarf að borga stéttarfélagsgjald, a.m.k. 1%, 500 kr. á mánuði, sem hann getur munað mjög mikið um. Þetta gjald getur því oft verið mjög ófélagslegt og hitt menn illa fyrir, sérstaklega þá sem eru á lágum launum og stéttarfélögin hafa ekki gert það beysna kjarasamninga að þeir séu til að hrópa húrra fyrir.