Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 16:53:28 (3872)

2003-02-13 16:53:28# 128. lþ. 79.11 fundur 298. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[16:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Gjöldin til stéttarfélaganna renna að sjálfsögðu að hluta til launagreiðslna starfsfólks laun sem heldur utan um félagsstarfsemina og sinnir þeim verkefnum sem félagsmenn ætlast til að þeir ræki. En ég tek eftir því hvað hv. þm. er upptekinn af því að gjöld og réttindi sem þau skapa standist alltaf á. Hann segir t.d. hér um iðgjald til lífeyrissjóðs, með leyfi forseta:

,,Iðgjald til lífeyrissjóðs, sbr. lög nr. 129/1997, er sömuleiðis ekki hreint þjónustugjald þar sem einhleypum barnlausum karlmanni er gert að greiða of hátt iðgjald sem að hluta til stendur undir barna- og makalífeyri annarra einstaklinga og dýrari ellilífeyri kvenna.`` --- Þetta er þankagangur sem mér er alls ekki að skapi og er ekki einkennandi fyrir viðhorf innan verkalýðshreyfingarinnar.

Varðandi handahófskennt boð hv. þingmanns til lífeyrisþega fyrr á árum, á fyrri hluta 9. áratugarins, ætla ég ekkert að vefengja það. (PHB: Sjóðfélaga.) Sjóðfélaga. Ég ætla ekkert að vefengja hann í því efni. En ég vil benda honum á og upplýsa hann um að stéttarfélögin, innan BSRB t.d., hafa farið út á þá braut á síðustu missirum að bjóða fólki handahófskennt til að leita ráða hjá því og heyra viðhorfin auk hinna hefðbundnu fulltrúafunda, funda með trúnaðarmönnum. Viðhorfin, eftir því sem mér er tjáð, eru mjög jákvæð. Þar gætir ekki þessarar neikvæðni sem verður vart í málflutningi hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem betur fer.