Flm. (Ögmundur Jónasson):
Herra forseti. Ég tala fyrir till. til þál. um að ríkisstjórnin beiti sér gegn áformum um innrás í Írak og að Ísland standi utan við hvers kyns hernaðaraðgerðir gegn því landi. Þessa þáltill. flytja allir þingmenn þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.
Texti þáltill. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma þeirri afstöðu á framfæri á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar þar sem við á að leita skuli allra leiða til að afstýra innrás í Írak, þar á meðal að veita vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna nægan tíma til að ljúka störfum sínum. Komi til hernaðaraðgerða gegn Írak á næstu mánuðum skal Ísland tilkynna að ekki verði heimiluð afnot af aðstöðu á íslensku yfirráðasvæði né verði um neins konar þátttöku að ræða af Íslands hálfu í slíkum aðgerðum.``
Í greinargerð eru málsatvik og reifuð og bent á að allt frá því að vopnaeftirlit á vegum Sameinuðu þjóðanna hófst að nýju í Írak í lok nóvember á síðasta ári hafi það legið í loftinu að óháð niðurstöðum eftirlitsmanna yrði ráðist inn í landið. Fyrir því hafa verið færðar ástæður eins og þær að stjórnvöld í Írak búi yfir gereyðingarvopnum, heimsbyggðinni stafi hernaðarógn af Írak, í landinu sitji harðstjórn að völdum og að hún styðji hryðjuverkamenn. Það er sannfæring flutningsmanna að enginn vandi verði leystur með stríðsaðgerðum og þess vegna eigi Ísland ekki að styðja slíkar aðgerðir ef til þeirra kemur. Vert er að hafa í huga að þetta er ekki í fyrsta skipti sem vesturveldin reyna að hafa afskipti af gangi mála á þessum slóðum. Lengst af 20. öldinni voru ítök Breta og Bandaríkjamanna mjög mikil í Miðausturlöndum, ekki síst við Persaflóann. Reyndar var Írak var stofnað af hálfu Breta. Það voru þeir sem stofnuðu landið árið 1921 en framan af var það í umboði þjóðabandalagsins sem þeir fóru með völd í landinu.
Við bendum á í greinargerð okkar að aðkoma Vesturlanda að þessu svæði sé saga mistaka. Írak var upphaflega stofnað sem konungsríki og konungurinn var sóttur til annars lands. Fyrir valinu varð Faysal, sonur Husseins konungs Sádi-Arabíu og bróðir Abdullah Jórdaníukonungs. Stjórn Faysals ávann sér aldrei trausts þjóðarinnar og var honum og þessari konungsætt steypt af stóli með blóðugri byltingu árið 1958. Fimm árum síðar, árið 1963, kemst síðan Baath-flokkurinn til valda í Írak og naut við það stuðnings bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Um þetta er ekki deilt.
Þá var það að gerast í grannríkinu á þessum tíma, um miðja öldina, að Muhammad Mossadeq var steypt af stóli að undirlagi Bandaríkjastjórnar árið 1953 og komst þá til valda í Íran Mohammed Reza Pahlavi keisari, sem svo aftur var steypt af stóli í blóðugri uppreisn árið 1979, en þá komust bókstafstrúarmenn shíta-múslima til valda í Íran, en eins og menn muna var grunnt á því góða með Írönum eða írönskum stjórnvöldum og Bandaríkjamönnum eftir það.
Bandaríkjamenn og Bretar hafa viljað styrkja stöðu sína á ný í þessum heimshluta. Það hefur komið fram að áður en olíulindir Íraka voru þjóðnýttar árið 1972 réðu bresk og bandarísk olíufyrirtæki yfir þveimur þriðja hluta olíuauðsins og þau hafa verið að sækjast eftir yfirráðum á nýjan leik. Talið er að Írak búi yfir álíka miklum olíuauðæfum og Sádi-Arabía sem eru mesta olíuframleiðsluríki veraldarinnar. Írak hefur haft mjög mikla framleiðslugetu. Það getur náð 11% af olíuframleiðslunni í heiminum. En eins og ég segi þá ætla sérfræðingar að olíuauðæfin séu meiri en þegar er vitað um. Talað er um 112 milljarða olíutunna. Menn geta sér til um að þetta sé mun meira eða 250 milljarðar olíutunna sem er svipað magn og er að finna í Sádi-Arabíu. En þá er einnig bent á það að olían sé að mörgu leyti auðunnari í Írak en hún er í Sádi-Arabíu. Eftir miklu er því að slægjast.
Athyglisvert er að á undanförnum árum hafa annað veifið verið að berast fréttir af því að frönsk, þýsk, kínversk og rússnesk fyrirtæki séu að semja við Íraka á bak við tjöldin um nýtingu olíunnar þegar viðskiptabanninu sleppir og er þetta að sjálfsögðu mjög í óþökk Bandaríkjastjórnar sem vill hygla sínum olíufyrirtækjum. Og við skulum ekki gleyma því að varaforseti Bandaríkjanna, Dick Cheney, sem var varnarmálaráðherra Bush þegar ráðist var inn í Írak 1991, er innsti koppur í búri í olíuiðnaðinum. Hann var framkvæmdastjóri Halliburton-fyrirtækisins sem er stærsta þjónustufyrirtæki við olíuiðnaðinn í heiminum. Bush var sjálfur einnig nátengdur þessum iðnaði. Við erum að tala um mikla hagsmuni.
Þetta kemur upp í hugann þegar maður hlustar á hæstv. utanrrh. okkar, Halldór Ásgrímsson, tala um að nú sé tíminn að renna út fyrir Saddam Hussein. Og hvað er þar að gerast? Jú, það er í þessu kapphlaupi Bandaríkjamanna að skipta um stjórn í Írak og setja þar á laggirnar stjórn sem er hliðholl Bandaríkjamönnum.
Þegar rætt er um hvort rétt sé að gera innrás í Írak til að umbylta stjórnarfarinu hafa menn talað um hve árásargjarn Saddam Hussein sé og að vonlaust sé að halda aftur af honum enda hafi hann tvívegis ráðist á önnur ríki. Það var árið 1980 þegar hann réðst gegn Íran og síðan í árslok 1990 þegar ráðist var inn í Kúveit. Í báðum tilvikum var um veikburða einangruð ríki að ræða. Íran var þá nýkomið með klerkastjórnina í andstöðu við Bandaríkjamenn, sem reyndar studdu Íraka í þessum hernaði gegn Íran. Og vel að merkja, sá sem nú fer með varnarmálin í Bandaríkjunum, Donald Rumsfeld, var sérstakur sendimaður Bandaríkjastjórnar árið 1983 þegar þeir voru að búa Saddam Hussein vopnum, m.a. efnavopnum, í baráttunni við Íran.
Kúveit var einnig einangrað ríki. Það naut stuðnings vesturveldanna að sönnu. En það hefur margoft verið vitnað í samtöl sem Írakar áttu á þessum tíma við fulltrúa Bandaríkjastjórnar, sem voru mjög misvísandi. Hvernig sem það er þá verður ekkert skafið af Saddam Hussein að hann er ófyrirleitinn harðstjóri sem hefur beitt landsmenn sína hörðu. Hann beitti efnavopnum gegn þeim á sínum tíma. En hann hefur ekki ráðist gegn þjóðum sem honum sjálfum stafar ógn af. Hann hefur ráðist gegn þjóðum sem hann telur sig geta ráðið við. Þetta er staðreynd. Og við skulum ekki gleyma því að þegar hernaðarsaga þessa svæðis er rifjuð upp kemur í ljós að aðrar þjóðir hafa verið mun árásargjarnari en Írakar hafa verið.
Varðandi hættuna sem stafar af notkun gereyðingarvopna má taka það fram að Írakar skutu tvívegis eldflaugum á önnur ríki í Persaflóastríðinu 1991, annars vegar gegn Sádi-Arabíu og hins vegar gegn Ísrael. Í báðum tilvikum var um að ræða flaugar sem gátu borið sýklavopn. Það gerðu þær hins vegar ekki. Og maður spyr sjálfan sig: Ef hann býr yfir þessum vopnum, hvaða aðstæður eru líklegastar til þess að vopnunum verði beitt? Er það ekki þegar öryggi stjórnarinnar er mest ógnað? Því er mjög undarlegt þegar maður heyrir síðan þessar yfirlýsingar sem ég vitnaði til hér áðan um að tíminn sé að renna út.
Þetta hefur verið tíundað í mörgum merkilegum greinum sem eru að birtast núna ótt og títt eftir því sem heimsbyggðin vaknar upp við þá ógn sem henni stafar af George Bush Bandaríkjaforseta og haukunum í Washington. Það eru þessir aðilar sem eru heiminum hvað hættulegastir núna.
Í einni slíkri grein sem prófessor við Harvard-háskóla hefur ritað, Stephen M. Walt, og heitir ,,Can Saddam Be Contained? History Says Yes``, og birtist ekki alls fyrir löngu, kemur fram að yfirmenn CIA hafi skýrt Bandaríkjaþingi frá því, að mati sinnar stofnunar, að ólíklegt væri að Saddam Hussein beitti gereyðingarvopnum gegn Bandaríkjamönnum nema því aðeins að þeir ógnuðu stjórn hans í Írak.
Þegar öllu er á botninn hvolft verður að telja undarlegt að sömu aðilar og á sínum tíma lögðu ofuráherslu á að viðhalda ógnarjafnvægi og hótun um ,,fullt endurgjald`` til að ,,halda aftur af`` Sovétríkjunum skuli nú telja ógn stafa af hugsanlegum vopnabúrum Íraka. Það er ekki sannfærandi og ber ekki vott um heilsteypta málafylgju ef svokölluð fælingaráhrif eru stundum tekin með í reikninginn og stundum ekki.
Herra forseti. Þetta er rökstuðningur með þessari þáltill. Sá rökstuðningur gæti verið miklu lengri og miklu ítarlegri. Málið er mjög alvarlegt. Við erum að leggja til að Íslendingar taki afdráttarlausa afstöðu í þessu máli, að við lýsum því yfir að við munum ekki heimila afnot af aðstöðu á íslensku yfirráðasvæði eða taka á nokkurn hátt þátt í aðgerðum gegn Írak.
Ég legg til að þessari þáltill. verði vísað til utanrmn. til umfjöllunar.