ESA og samningar við Alcoa

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 15:05:20 (3878)

2003-02-17 15:05:20# 128. lþ. 80.91 fundur 434#B ESA og samningar við Alcoa# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er alveg með ólíkindum, þetta ábyrgðarleysi sem kemur fram í svari hæstv. ráðherra, stormur í vatnsglasi. Eftirlitsstofnunin, ESA, hefur kallað eftir viðbótarupplýsingum, viðbótargögnum. Svo kynni að fara að samningurinn standist ekki ákvæði EES-samningsins. Hvað gerist þá? Þá fá Íslendingar á sig kæru. Það mun leiða til þess að taka verður upp samninginn, ákvæði samninganna. Nú stendur til að undirrita samninga í næsta mánuði ef áform ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga og ég spyr: Hver kemur til með að verða skaðabótaskyldur ef þörf reynist á því að taka samninginn upp samkvæmt kröfu ESA?

Herra forseti. Að afgreiða þetta mál sem storm í vatnsglasi er fullkomið ábyrgðarleysi.