ESA og samningar við Alcoa

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 15:08:45 (3880)

2003-02-17 15:08:45# 128. lþ. 80.91 fundur 434#B ESA og samningar við Alcoa# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tel að hv. þm. Vinstri grænna séu komnir dálítið fram úr sjálfum sér þegar þeir eru jafnvel farnir að tala um kærur og að samningurinn sé í uppnámi og annað slíkt. Það sem hér er um að ræða kemur fram í frv. sem nú hefur verið afgreitt frá iðnn. og lýsi ég sérstakri ánægju með það. Frv. um álver í Reyðarfirði var afgreitt nú í morgun frá iðnn. og það var aðeins fulltrúi Vinstri grænna sem treysti sér ekki til að vera þar á nefndaráliti með meiri hlutanum.

Hvað ríkið telur vera opinberan stuðning er ekki aðalatriði. Það sem ríkið þarf að gera í þessu tilfelli er að gefa allar upplýsingar. Síðan er það ESA sem ákveður hvað er opinber stuðningur og hvað ekki. Þannig fer þetta fram. Þetta er bara hluti af því sem við búum við, Íslendingar, eftir að við urðum aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði og við beygjum okkur að sjálfsögðu undir það og veitum allar þær upplýsingar sem beðið er um og væntum þess þá einnig að fá jákvæða niðurstöðu. Þetta mál er mjög sambærilegt við Norðurál þó að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vilji ekki viðurkenna það. Það skiptir kannski ekki öllu því að hann styður hvorugt málið.