Skráning skipa

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 16:00:36 (3885)

2003-02-17 16:00:36# 128. lþ. 80.17 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv. 10/2003, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[16:00]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans en það fór auðvitað eins og mig grunaði, dæmin liggja ekki á lausu, herra forseti. Hæstv. ráðherra lítur svo á að hann sé að tryggja almenn skilyrði til þess að bæta hag útgerðanna. Ég verð að líta svo á, herra forseti, að hér sé verið að fara að kröfu LÍÚ í því að ná þessu máli fram. Ég verð einnig að segja það, herra forseti, að mér finnst það ekki burðugt að forusta LÍÚ skuli ekki einu sinni leggja fram dæmi þar sem menn geta beinlínis sýnt fram á að það sem þeir sækjast eftir sé þess virði og réttlæti þann lagatexta sem við erum með í höndunum, herra forseti.

Eina dæmið sem ég man eftir tengist Færeyjum, ég vék að því áðan. En í umsögn sjútvn. segir:

,,Þegar um alþjóðleg hafsvæði er að ræða verðum við að gera þá kröfu að þær veiðar sem við stundum gangi ekki gegn skynsamlegum stjórnunar- og verndunarsjónarmiðum. Sem ábyrg fiskveiðiþjóð verðum við að tryggja að þessi sjónarmið séu í heiðri höfð jafnvel þótt aðrar þjóðir telji sér það ekki skylt.``

Sá fiskur sem verið er að tala um að við hefðum hugsanlega getað fengið --- eina dæmið sem ég hef heyrt um það, varðandi Færeyjar, var uppi í Barentshafi og þar hefur verið leyfður 360 þús. tonna afli á ári samanlagt af Norðmönnum og Rússum sem er langt umfram heimildir Alþjóðahafrannsóknaráðsins á undanförnum árum. Því spyr ég enn: Mundi þetta ákvæði nægja til þess að við færum ekki að veiða þar?