Skráning skipa

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 16:08:23 (3890)

2003-02-17 16:08:23# 128. lþ. 80.17 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv. 10/2003, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[16:08]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað með öllu rakalaust að ríkisstjórnin og þar með samgrh. gangi erinda aðila sem vinna gegn hagsmunum sjómanna. Það er fjarri öllu lagi. Ég hef lagt á það áherslu að við stöndum hér fyrir breytingum sem munu styrkja stöðu útgerðanna. Ég hef haldið því fram að þeim mun öflugri sem íslensk útgerð er, þeim mun meiri líkur eru á að hagsmunir sjómanna séu tryggðir. Þetta hlýtur að fara saman og hv. þm. Ögmundi Jónassyni á að vera þetta fullkomlega ljóst.

Að ganga erinda útgerða. Mér fannst ansi neikvæður tónn í þessari setningu hjá hv. þm. Ef við gengjum sérstaklega erinda útgerðarmanna, væri það alvont? Er það algerlega fordæmanlegt? Ég tel mig ekkert vera minni mann þótt ég gangi erinda útgerðarmanna þegar ég er sannfærður um að það er í þágu heildarhagsmuna. Ég þekki marga sjómenn á skipum sem eru við veiðar í lögsögu annarra ríkja sem yrðu á skipum í eigum Íslendinga ef þessi breyting yrði gerð. Það liggur alveg fyrir að þær útgerðir yrðu til þess að skapa fleiri störf og treysta betur hagsmuni sjómanna þar með. Ég held að þarna séu hv. þm., eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson, að mála skrattann á vegginn og reyna að gera málið neikvætt og ég tel það ekki vera í þágu íslenskra sjómanna.