Skráning skipa

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 16:10:43 (3891)

2003-02-17 16:10:43# 128. lþ. 80.17 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv. 10/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[16:10]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér ekki á óvart að hæstv. ráðherra skuli lýsa því yfir að hann telji það til góðs þegar hann og ríkisstjórnin ganga erinda útgerðarinnar. Ég tek hins vegar undir með sjómönnum sem vara við því að þetta sé gert, að það sé hugað að hagsmunum útgerðarinnar á kostnað sjómanna. Það telja þeir að sé að gerast með þessum lögum sem opna á undirboð á kjarasamningum.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að kjaramál sjómanna væru ekki í þeim farvegi sem við óskuðum. Ég held að hann eigi að tala fyrir sjálfan sig og fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í þessu efni því að kjaramál sjómanna hafa ítrekað komið upp á borð á Alþingi, síðast í harðvítugm verkfallsdeilum sjómannasamtakanna gegn útgerðinni. Þá gerðist það aftur að ríkisstjórnin gekk erinda útvegsmanna á kostnað sjómanna. Þetta endurtekur sig því eina ferðina enn.