Skráning skipa

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 16:13:27 (3893)

2003-02-17 16:13:27# 128. lþ. 80.17 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv. 10/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[16:13]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra talaði um heildarhagsmuni í þessu máli og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann eða þeir sem komu að því að semja þetta frv. hafi velt fyrir sér hvaða viðbrögð verða við því ef aðrar þjóðir óska þess sama hér, að fá að skrá skip hér með skipaskráningu sem hér er um að ræða og/eða ef því verður til svarað í þeim ríkjum sem Íslendingar vilja fá slíka skráningu að hún verði einungis heimiluð með gagnkvæmum hætti, að útgerðarmenn frá þeim svæðum geti fengið að skrá skip á Íslandi með sama hætti. Ég held að það sé ástæða til að spyrja að þessu vegna þess að ég vissi af því að a.m.k. ein eða tvær útgerðir gerðu tilraunir til þess að flytja skip til landsins til þess að fara að gera héðan út, erlendar útgerðir, og ég held að það sé þannig í samskiptum milli þjóða að menn ætlist til ákveðinnar gagnkvæmni. Menn geta ekki ætlast til þess að fá réttindi í einu landi af einhverju tagi og neita svo um slík réttindi í sínu landi ef þeim hentar ekki að skrifa upp á það. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann tilbúinn til þess? Á að líta þannig á að þetta lagafrv. segi okkur það að menn séu tilbúnir til þess að leyfa erlendum aðilum að skrá skip hér á sama hátt og hér er lagt til að Íslendingar geti gert erlendis?