Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 16:25:39 (3899)

2003-02-17 16:25:39# 128. lþ. 80.20 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[16:25]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég tel að þetta frv. sé til bóta. Það hefði verið afar slæmt ef þessi heimild hefði dottið sjálfkrafa út 1. september nk., einkum þar sem komið hefur í ljós hvaða verðmæti eru að koma að landi samkvæmt þessari 5% reglu og að 250 fiskiskip hafa þegar nýtt sér regluna á fyrsta tímabilinu, á sjö mánaða tímabili. Þar eru auðvitað að koma mikil verðmæti að landi sem við vitum ekki hvort komið hefðu ella ef þetta ákvæði hefði ekki verið inni, a.m.k. tel ég að talsvert af þeim afla sem hér um ræðir hefði ekki gert það.

Þess vegna velti ég því fyrir mér, herra forseti, og vil láta það koma fram í þessari stuttu ræðu minni, hvort ekki ætti að vera heimild fyrir því að ráðherra hefði heimild til að hækka þetta ákvæði. Nú kemur af þessu reynsla á heilu fiskveiðiári sem liggur fyrir þegar þetta fiskveiðiár er liðið og væri náttúrlega fróðlegt að skoða það hve mörg fiskiskipanna fullnýta í rauninni þessa reglu, 5% regluna, eða hvort menn fullnýta hana í einhverjum sérstökum tegundum.

Ég hefði talið að það væri meira en einnar messu virði að skoða hvort sú heimild ætti að vera rýmri því það þjónar auðvitað engum tilgangi að hafa reglu í gildi, sem var eins og áður, að ef menn lenda í þröngri stöðu einhverra hluta vegna eða aðrar aðstæður eru uppi eins og núverandi kerfi býður upp á að menn eigi ekki kost á að afla sér heimilda en fá aflann í veiðarfærin, það geta verið margar ástæður fyrir því, að þá séu menn komnir aftur í þá stöðu að þurfa að losa sig við aflann eða menn freistist til þess til að missa ekki veiðileyfið.

Þess vegna vil ég velta því upp í þessari umræðu hvort eðlilegt væri að setja heimildarákvæði til viðbótar við 1. gr. um að ráðherra væri heimilt að hækka þessa viðmiðun um einhverjar prósentur, hvort sem það eru 2% eða 5%, þannig að menn séu þá raunverulega að mæta því sem ella kæmi einfaldlega ekki að landi og yrði ekki að verðmæti.

Ég held að það hljóti að vera svo, herra forseti, að eins og þetta ákvæði var sett inn hafi menn verið að reyna að tryggja það að til þess að brottkast yrði minna væri heimild til þess að koma með aflann að landi án þess að menn lentu beint í refsiákvæðum og veiðileyfissviptingu fyrir það.

[16:30]

Ég vil líka láta þess getið, herra forseti, að komið hefur í ljós eftir að menn fóru að stunda hér síldveiðar, kolmunnaveiðar og loðnuveiðar með flotvörpu að þau skip hafa annað slagið verið að fá meðafla af botnfiskstegundum sem ekki hefur verið kvótareiknaður og án þess að neitt sérstaklega væri verið að taka á þeim málum. Auðvitað munu menn fá meðafla af og til við þá veiðarfæranotkun. Spurningin er hins vegar hvort þetta sé annað slagið í óeðlilegu miklu magni. Það er kannski ekki beint þáttur þessa máls. En það vekur þó athygli á því að við erum að taka hér upp þó nokkra nýbreytni í veiðum á uppsjávarfiski með flotvörpu sem getur haft þennan fylgifisk, þ.e. að menn fá meðafla. Það er auðvitað spurning hvernig með á að fara. Fróðlegt væri ef ráðherra vildi upplýsa okkur aðeins um það, af því að ég þykist vita að honum sé kunnugt um þetta málefni, hvernig með þann meðafla er farið sem fæst með uppsjávarveiðum í troll og hvaða hugmyndir ráðherrann hefur um að taka á því máli. Ætlar hann þá að setja svona meðaflareglu eins og hér er? Hefur það verið rætt sérstaklega í ráðuneytinu? Hafa menn verið að ræða það í sjútvrn. hvernig skyldi með farið? Það væri fróðlegt ef ráðherrann vildi upplýsa okkur um hvaða stærðir er þar að ræða. Ég þykist vita að veiðieftirlitsmenn sem hafa verið að skoða þau mál að undanförnu hafi þessar upplýsingar og ég geri ráð fyrir að ráðherrann sem fylgist með sjávarútvegsmálum viti það einnig. Því væri fróðlegt að fá það upplýst hér í umræðunni. Það er auðvitað meðaflamál alveg eins og þessi 5% regla sem við erum með hér.

Ekki verður hjá því komist, herra forseti, að ræða þetta vandamál. Það er til staðar nákvæmlega eins og þetta vandamál var til staðar áður en við settum 5% regluna og er jafnvel enn þá til staðar umfram 5% þó að við vitum ekki nákvæmlega hvar þessi lína liggur í prósentutölu, þ.e. hvað hún þarf að vera svo að menn lendi sem betur fer nánast aldrei í einhverjum virkilegum skakkaföllum vegna þess að þeir fá afla sem þeir sækjast ekki beinlínis eftir.

En þetta er auðvitað vandinn við allar kvótastýrðar fiskveiðar. Við skulum ekki gleyma því að síldartrollin og kolmunnatrollin og loðnutrollin eru dregin áfram af stórum skipum með mikið vélarafl og mikinn spilkraft. Það er auðvitað þannig að botnfiskstegundirnar eru ekkert alltaf klesstar niður í botninn. Þær eru uppi í sjó og fást annað slagið í vörpur af þessu tagi því að möskvinn er smár og hann getur ekkert sleppt þessu út ef þetta er innan um þær fisktegundir sem verið er að sækjast eftir.

Ég mælist til þess við hæstv. sjútvrh. að hann víki að þessu vandamáli. Ég hygg að það þurfi að ræða þetta fyrir opnum tjöldum alveg eins og við þurftum að ræða brottkastsvandann á sínum tíma sem við ræddum reyndar í fjölda ára. Menn deildu um hvort brottkast ætti sér stað eða ekki. Lengi var búið að leggja til að sett yrði svona meðaflaregla til þess m.a. að tryggja það að afli gæti komið að landi. Þess vegna vek ég máls á þessu hér, herra forseti. Við erum farnir að halda úti þessum veiðum sem ég vék hér að og ég held að mönnum sé ljóst að þessi kraftmiklu skip og kraftmiklu veiðarfæri munu annað slagið lenda í bolfiski, jafnvel seiðum nytjafiska okkar, eins til tveggja ára fiski. Ég held að nauðsynlegt sé að menn opni þá umræðu og reyni að taka á því vandamáli. Ég ætla rétt að vona, herra forseti, að ekki þurfi þrjú, fjögur ár eða réttara sagt kannski tíu ár til þess að menn fáist loksins til að taka á því vandamáli. Ég held að vandamálið sé til staðar. Ég er alveg viss um að sjútvrh. hefur heyrt ýmislegt um það mál frá veiðieftirlitinu og Hafrannsóknastofnun. Ég vek máls á þessu hér vegna þess að þetta tengist beinlínis málinu sem hér er í umræðunni. Þetta mál var opnað inn á þessi 5% á nákvæmlega sömu forsendum að því leyti til að menn voru að reyna að tryggja að afli sem þeir fengju í veiðarfæri og höfðu kannski ekki kvóta fyrir eða gátu ekki nýtt að fullu með öðrum aðferðum --- hann varð e.t.v. fyrir einhverjum skemmdum. Þannig getur bolfiskur vissulega farið í dælum nótaveiðiskipanna. En hann er samt að hluta til nýtanlegt hráefni og jafnvel óskemmdur, eins og sést hafa myndir af. Ég vona að hæstv. sjútvrh. efist ekkert um að þær myndir eru ekki settar á svið. Þær hafa birst á forsíðum virtra sjávarútvegsblaða eins og Fiskifrétta og engin ástæða er til þess að halda að þær séu settar á svið.

Það tók okkur mörg ár, herra forseti, að komast að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að opna meðaflareglu eins og hér var sett, þ.e. þessa 5% reglu. Við höfum örugglega fórnað tugum ef ekki hundruðum milljóna í verðmætum á öllu kvótatímabilinu vegna þess að við vildum ekki viðurkenna að þetta vandamál væri til staðar og tókum ekki á því. Ég veit ekkert hversu stórt vandamálið er varðandi togveiðar nótaskiptanna en ég hygg að það geti stundum verið til staðar og stundum jafnvel í miklum mæli. Ég þykist þess alveg fullviss að ráðherra veit um þessi dæmi og ég held að það sé langbest fyrir okkur öll að þora að ræða þau opinskátt alveg eins og við fórum að ræða um brottkastið á sínum tíma og höfum vonandi tekið á hluta af því vandamáli með þessari reglu sem hér er í lögum og við erum nú að tala um að framlengja til tveggja ára.

Þess vegna mælist ég til þess, herra forseti, að ráðherrann ræði þetta mál við okkur alveg af fullri hreinskilni og sé ekki að fela neinar þeirra upplýsinga sem ég þykist vita að hann búi yfir. Ég mælist til þess að hann leggi þetta mál hér fyrir. Það er óþarfi að dingla með þetta vandamál tvö, þrjú ár í viðbót án þess að þora að taka á því. Ég skora á ráðherrann að tala um þetta mál eins og það liggur fyrir.

(Forseti (GuðjG): Forseti vill að gefnu tilefni minna hv. þingmenn á að ávarpa hæstv. ráðherra.)

Hæstv. ráðherra mörgum sinnum.