Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 16:47:32 (3906)

2003-02-17 16:47:32# 128. lþ. 80.19 fundur 598. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (búsetuleyfi, EES-reglur) frv. 84/2003, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[16:47]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á síðasta vori afgreiddum við á Alþingi lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Aðstæður hafa breyst nokkuð síðan gengið var frá þeim lögum og þess vegna þarf ég að flytja hér lítið frv. til að laga þessi lög um atvinnuréttindi útlendinga að nútímanum.

Í fyrsta lagi þarf að breyta skilgreiningu á hugtakinu ,,búsetuleyfi`` því samkvæmt lögunum um atvinnuréttindi útlendinga er það ekki með sömu merkingu og í lögunum um útlendinga. Í útlendingalögunum er þetta ,,dvalarleyfi`` en í 7. lið 3. gr. laganna um atvinnuréttindi útlendinga er skilgreiningin á búsetuleyfi sú að það sé ,,leyfi sem gefið er út með varanlega dvöl í huga samkvæmt lögum um útlendinga``.

Í lögunum um útlendinga er það hins vegar dvalarleyfi án takmarkana sem getur orðið grundvöllur búsetuleyfis. Og búsetuleyfi er skilgreint sem leyfi sem ,,felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar`` og það megi veita útlendingi ,,sem dvalist hefur hér á landi samfellt síðustu þrjú ár samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum``. Hér er um einfalda breytingu að ræða til samræmis við lögin um útlendinga.

Í öðru lagi höfum við gerst aðilar að svokölluðum Vaduz-samningi, sem er nýr stofnsamningur EFTA. Þar var ákveðið að reglur EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga skuli einnig gilda gagnvart EFTA-ríkjunum og líka því EFTA-ríki sem ekki er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Því er lagt til að a- og b-liðir verði sameinaðir og reglugerðarheimild sett inn í lögin svo unnt sé að kveða nánar á í reglugerð um stöðu þeirra útlendinga sem hvorki eru ríkisborgarar í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið né Sviss.

Herra forseti. Ég legg til að þetta mál verði sent hv. félmn. til skoðunar.