Lífskjarakönnun eftir landshlutum

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 17:25:43 (3911)

2003-02-17 17:25:43# 128. lþ. 80.26 fundur 389. mál: #A lífskjarakönnun eftir landshlutum# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[17:25]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um lífskjarakönnun eftir landshlutum sem allir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs standa að.

Tillaga samhljóða þessari var flutt á 125. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Það var mælt fyrir henni en það er full ástæða til þess að taka hana upp hér aftur og þá í beinum tengslum við þær aðgerðir sem við teljum að þurfi að fara í til þess að treysta byggð og búsetu í landinu.

Herra forseti. Þáltill. er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta gera ítarlega könnun á lífskjörum landsmanna, sundurliðaða eftir helstu þáttum og flokkaða eftir landshlutum þannig að marktækur samanburður fáist. Kannaðir verði allir sömu þættir og skoðaðir hafa verið í neyslukönnunum Hagstofu Íslands svo að nota megi hana til að meta framfærslukostnað fjölskyldna. Auk þess verði metnir allir helstu þættir sem áhrif hafa á almenn lífskjör, svo sem laun, verðlag, kostnaður við skólagöngu barna og ungmenna, kostnaður við heilbrigðisþjónustu og samgöngur, húshitunarkostnaður og aðgangur að almennri þjónustu.

Herra forseti. Hagstofa Íslands hefur gert ítarlegar kannanir, svokallaðar lífskjarakannanir, þar sem sem flestir þættir eru teknir inn í. Það er nauðsynlegt að gera slíkar kannanir með reglulegu millibili. Nú er nokkuð um liðið síðan síðasta könnun var gerð, það var árið 1995, og nú er kominn tími til að gera slíka aftur. Ástæðan er margþætt. Hér á landi hafa verið miklir búferlaflutningar undanfarin ár. Ástæður eða orsakir þeirra eru að mörgu leyti kunnar en þó hafa ekki allir þættir verið skoðaðir. Við ræddum hér í síðustu viku áhrif á skattlagningu hvað varðar flutninga og flutningskostnað, vöruverðsþróun. Við höfum rætt hér á þingi mjög aukinn kostnað fólks úti í hinum dreifðu byggðum við að mennta börn sín og við höfum rætt um hátt vöruverð og fleiri þætti sem hafa áhrif á búsetuþróunina. Því er nauðsynlegt að hafa þessa heildarsýn.

Það er ör þróun í gangi í þjóðfélagi okkar á öllum sviðum, t.d. í landbúnaði, fiskveiðum, í atvinnu tengdri fiskveiðum við sjávarstrendurnar. Það þarf góða skönnun á öllum þessum hlutum til að geta brugðist markvissara við byggðaröskuninni og treyst styrkingu byggða en við höfum í höndunum í dag.

Í janúarmánuði árið 2002 kynnti Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skýrslu um tekjuskiptingu á Íslandi þar sem fram kemur að misskipting hafi aukist á síðustu árum þrátt fyrir að heldur vel hafi árað í efnahagslífinu. Skýrslan sýnir að meðallaun hafa hækkað mun hraðar á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni frá miðjum tíunda áratugnum og jafnframt hafi misskipting aukist á höfuðborgarsvæðinu en minnkað á landsbyggðinni. Það má ætla að þessi þróun hafi haldið áfram.

[17:30]

Í skýrslu sem Stefán Ólafsson vann fyrir Byggðastofnun um orsakir búferlaflutninga á Íslandi og gefin var út í nóvember 1997 kemur fram að einn helsti orsakavaldur byggðaröskunarinnar er mismunur á launakjörum og vöruverði milli landshluta. En þar að auki er nauðsynlegt að átta sig á því hvernig einstök byggðarlög eru í stakk búin til að tryggja almenna velferð íbúanna. Aðgangur að hvers kyns félagslegri þjónustu er snar þáttur í almennum lífskjörum og er vissulega misjafn eftir byggðarlögum. Nauðsynlegt er að draga þennan mun fram og í kjölfarið að stuðla að sem jöfnustum rétti allra landsmanna í þessum efnum sem öðrum.

Til að bregðast markvisst við þessum vanda er nauðsynlegt að vinna úr traustum grunnupplýsingum. Mikilvægt er að fá fram vandaða skýrslu um alla þá þætti sem skapa aðstöðumun milli byggðarlaga þannig að í ljós komi til hvers konar aðgerða þarf að grípa á hverju svæði. Sem stendur liggja þessar upplýsingar ekki fyrir þótt finna megi ýmsar vísbendingar um ástand mála í eldri skýrslum. Þar má helst nefna síðustu neyslukönnun Hagstofu Íslands, sem unnin var árið 1995, og vitnað var til áðan, og ýmsar tölfræðilegar upplýsingar frá sama ári sem fram koma í skýrslu þróunarsviðs Byggðastofnunar um forsendur stefnumótandi byggðaáætlunar 1998--2002.

Herra forseti. Ekki er nægilegt að gera svona úttekt og það mjög ítarlega nema að ætla sér að nota hana og það er einmitt tilgangur okkar með þessari tillögu, þ.e. að hið fyrsta verði farið í að gera þessa ítarlegu lífskjarakönnun, niðurstöðurnar síðan nýttar og notaðar til þess að byggja grunn fyrir svæðisbundna uppbyggingu því þarfirnar eru mismunandi eftir landshlutum og við eigum að taka tillit til þess þegar við leggjum fram fjármagn og vinnu til þess að styrkja byggðirnar. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum lagt til að þróunarfélögin, þróunarstofurnar eða atvinnuþróunarfélögin verði sá vettvangur sem komi markvissast að þeirri vinnu, en þá þurfa þróunarfélögin þennan grunn til að byggja á.

Herra forseti. Frekari gögn og töflur fylgja þessari þáltill. sem sýna fram á mismunandi kostnað á milli svæða á hinum ýmsu sviðum. Nefna má mat- og drykkjarvöru, föt og skó, húsnæði, heilsugæslu, tómstundir, menntun o.fl. Þessi munur er áberandi. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum jafna kjör landsmanna og nota þau tæki sem við höfum, fjármagn og atvinnuþróunarfélögin, til þess að treysta þann grunn sem búseta í landinu er.