Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 14:03:42 (3921)

2003-02-18 14:03:42# 128. lþ. 81.15 fundur 325. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (færsla Hafrannsóknastofnunar undir umhverfisráðuneyti) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[14:03]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tel að frv. sem hér var mælt fyrir af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni eigi fullt erindi til umræðu í þinginu. Ég held að ég geti tekið undir flest eða allt sem hv. þm. sagði um þetta mál.

Til viðbótar vil ég segja að það hefur því miður verið þannig um langa tíð að sjútvrn. og sjútvrh. hafa verið undir miklum þrýstingi og áhrifum frá öflugum útgerðaraðilum í landinu. Stjórnvöld hafa ekki, að mínu viti, brugðist rétt við þeim þrýstingi og virðast hafa talið að það væri jafnvel sjálfsagt mál að forstjórar stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins væru jafnframt stjórnarformenn í Hafrannsóknastofnun. Það segir auðvitað sitt um það hvaða hugsunarháttur hefur ráðið ríkjum í þessu efni, að það ætti sem sagt að láta þá sem eru hagsmunaaðilar í þessum atvinnuvegi ráða svona gífurlega miklu um það hvernig málum er þar stjórnað. Það hlýtur auðvitað að kalla á ákveðna tortryggni gagnvart því að viðkomandi aðilar séu þá frekar líklegir til þess að draga taum þeirra útgerða eða útgerðarforma sem þeir eru sjálfir að vinna við, og það er ekki heppilegt.

Það að hafa t.d. formann stjórnar Hafrannsóknastofnunar árum saman frá einu stærsta togskipafélagi í landinu hefur auðvitað vakið tortryggni. Þó að sá maður hafi staðið sig að mörgu leyti mjög vel og sé hinn besti maður eru þeir sem starfa í öðrum geirum þessa atvinnuvegar kannski ekki endilega sannfærðir um að það sé heppilegt að ákvarðanir séu í höndum forstjóra úr einhverjum öðrum geira en þeir eru úr sjálfir. Þannig er þessi gagnrýni.

Það er annað sem mig langaði til að nefna í þessu sambandi. Ég tel að það þurfi að endurskoða stjórnskipanina kannski miklu meira en hér er verið að leggja til. Sú breyting sem hér er verið að tala um gæti hins vegar gæti alveg gengið inn í slíka endurskipulagningu. Mér finnst að það eigi að velta því fyrir sér og skoða mjög alvarlega að hér verði sett upp atvinnuvegaráðuneyti. Samt sem áður finnst mér að þetta vald sem þarna er verið að tala um, þetta ákvörðunarvald um veiðar úr stofnunum og eftirlit með rannsóknum og störfum Hafrannsóknastofnunar, eigi miklu frekar heima hjá umhvrn. Þetta er orðið allt saman ákaflega ankannalegt. Við erum að fást við eitt frv. núna sem liggur inni hjá umhvn. um verndun hafs og stranda, og það hefur auðvitað sýnt okkur fram á að þetta er orðin ein allsherjarflækja þar sem fjögur, jafnvel fimm, ráðuneyti eru í raun og veru með skarað áhrifavald á sömu blettunum. Jafnvel í sama firðinum eru fjögur ráðuneyti að vasast í hinum ýmsu málum.

Þetta er auðvitað ekki gott og þarf að endurskoða allt saman. En það hefur einhvern veginn verið slík togstreita í gangi að það hefur ekki fram að þessu verið sjóveður í að taka á þessari endurskoðun sem er þó mjög nauðsynleg.

Ég ætla samt ekki að ræða í smáatriðum hvernig mér finnst að eigi að skipa þessum málum, vildi engu að síður koma hingað og taka undir það sem hér hefur verið sagt með flutningi þessa frv. og rökstuðningnum sem hefur verið færður fram fyrir því. Ég sé fulla ástæðu til að þessi breyting verði tekin til alvarlegrar skoðunar.