Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 14:08:48 (3922)

2003-02-18 14:08:48# 128. lþ. 81.15 fundur 325. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (færsla Hafrannsóknastofnunar undir umhverfisráðuneyti) frv., Flm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil bara þakka fyrir þær undirtektir sem hér hafa komið fram við efni málsins og tek jafnframt undir þau sjónarmið sem hv. þm. Jóhann Ársælsson setti fram varðandi rannsóknir og stöðu þeirra í dag þar sem mörg ráðuneyti koma að málum og erfitt að taka ákvarðanir í þeim efnum.

Það er alveg ljóst að þegar öflugir talsmenn stærstu hagsmunaaðila sitja í stjórn rannsóknastofnunar er það ekki tilviljun. Og þó að þeir vilji stofnuninni allt vel eru þeir auðvitað að gæta sinna hagsmuna, þar eins og annars staðar.

Það hefur verið þannig nokkuð lengi að í stjórn Hafrannsóknastofnunar hafa setið tveir menn sem voru umsvifamiklir áhrifamenn innan stórra útgerðarfyrirtækja og vinnslufyrirtækja og annar þeirra var um nokkurt skeið formaður stjórnar Hafrannsóknastofnunar, Brynjólfur Bjarnason, sem var forstjóri Granda hf. Auk þess hefur verið í stjórninni Eiríkur Tómasson, sem er einn af háttsettustu mönnum innan Þorbjarnar Fiskaness í Grindavík. Þetta er sú staða sem menn eru að taka á með þessu frv. --- auk þeirra hefur setið fulltrúi frá sjómönnum, --- að beinir hagsmunaaðilar séu ekki að taka ákvarðanir og vera stjórnendur í stofnun sem í eðli sínu er rannsókna- og vísindastofnun. Þeir eru ekki á réttum stað þegar svo er.

Ég vil árétta það og jafnframt geta þess að það hafa orðið breytingar í stjórninni. Eftir að Brynjólfur Bjarnason hætti hjá Granda og fór til Símans fór hann auðvitað úr stjórn Hafró. En ég vil, herra forseti, bara þakka fyrir þessar undirtektir og árétta það að ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. umhvn.