Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 14:19:55 (3924)

2003-02-18 14:19:55# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[14:19]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um átak til að auka framboð á leiguhúsnæði. Þingmálið er flutt af öllum þingflokki Samfylkingarinnar.

Efni þessarar tillögu er að Alþingi álykti að fela ríkisvaldinu að ráðast í átak til að fjölga leiguíbúðum og stuðla að viðráðanlegum leigukjörum í samráði við sveitarfélögin, verkalýðshreyfinguna og félagasamtök. Í því skyni á að gera fjögurra ára áætlun með það að markmiði að leysa húsnæðisvanda þeirra sem eru á biðlista eftir leiguhúsnæði og þeirra sem nú eiga hvorki rétt til almennra né félagslegra lána.

Ég held, herra forseti, að allir viðurkenni núorðið að neyðarástand ríkir í húsnæðismálum láglaunafólks, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Biðlisti hefur tvöfaldast á stuttum tíma og bíða nú 2--3 þúsund manns á landinu öllu eftir leiguhúsnæði.

Herra forseti. Óhætt er að segja að beint samhengi er á milli þess að félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður og langra biðlista. Þótt leitað sé langt aftur í tímann eru fáar ef nokkrar aðgerðir sem hafa haft eins afgerandi áhrif til að draga niður lífskjör láglaunafólks og að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið án þess að á sama tíma lægi fyrir önnur lausn á húsnæðismálum láglaunafólks. Afleiðingarnar voru mjög víðtækar, herra forseti. Auk langra biðlista hefur bæði fasteignaverð og leiguverð rokið upp í kjölfar breytinganna sem gerðar voru á húsnæðiskerfinu. Þannig hækkaði íbúðaverð fljótlega eftir að félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður um 30--40% og leiguverð íbúða enn meira, en algengt er að leiguverð tveggja til þriggja herbergja íbúða í Reykjavík sé nú 70--90 þús. kr. sem samsvarar hátt í mánaðarlaunum láglaunafólks. Niðurlagning á húsnæðiskerfinu eins og ég nefndi og síðan mikill flutningur fólks af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið hefur átt hér stærstan hlut að máli.

Áhrif þessara breytinga á húsnæðiskerfinu urðu mjög víðtæk en auk langra biðlista og sprengingar á íbúða- og leiguverði hækkaði fasteignaverð verulega í kjölfarið og fasteignamat síðan og þar með fasteignagjöld og því fylgdi í mörgum tilvikum skerðing á barna- og vaxtabótum og hækkun á eignarskatti. Enginn einn þáttur, herra forseti, hefur því átt eins drjúgan þátt í að hækka íbúða- og leiguverð ef undan eru skildar miklar kostnaðarhækkanir sem hafa verið og má þá t.d. nefna bensínverðshækkun.

Herra forseti. Það er ekki bara mitt álit eða Samfylkingarinnar hvaða afleiðingar það hafði að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið. Vil ég vitna í ársfund Alþýðusambands Íslands á síðasta ári en þar var ályktað eftirfarandi um húsnæðismál:

,,Leiga eða húsnæðiskostnaður er langstærsti liðurinn í framfærslukostnaði fólks með lágar bætur og tekjur. Eyðilegging félagslega íbúðakerfisins og hækkun húsaleigu vegna afnáms vaxtaniðurgreiðslu kemur mjög illa við þessa hópa, sem í raun hafa enga möguleika til að standa undir þessum hækkunum.``

Við fögnum því auðvitað í Samfylkingunni að sjónarmið okkar og heildarsamtaka launafólks fari í meginatriðum saman í þessu brýna hagsmunamáli láglaunafólks sem setja þarf í forgang að okkar mati við endurreisn á velferðarkerfinu.

Mig langar, herra forseti, að fara yfir nýjustu tölur sem liggja fyrir um langa biðlista eftir leiguíbúðum en nýlegar upplýsingar benda til að í Reykjavík einni séu um 1.800 einstaklingar og fjölskyldur á biðlistum. Hjá Félagsstofnun stúdenta voru umsóknir um 835 á síðasta ári og ekki var hægt að leysa þörf nema um 50--60% nemenda. Af þessum fjölda eru um 550 af landsbyggðinni og fjölgun á biðlistum námsmanna eftir leiguíbúðum er um 30--40% milli ára. Hjá Öryrkjabandalaginu eru nú um 375 öryrkjar á biðlista og við þann biðlista bætast um 100 öryrkjar á ári.

Hjá stórum hluta þessara hópa sem ég hef talið upp og eru á biðlistum ríkir hreint neyðarástand. Ég verð vör við það, herra forseti, því mörgum sinnum í viku hringir til mín fólk sem er á þessum biðlistum til að lýsa því neyðarástandi sem það býr við. Sumt af því hefur neyðst til að fara á almenna leigumarkaðinn og er þar ofurselt háum leigukjörum og ég býst við því að þetta sé ein stærsta ástæða þess að fátækt hefur farið vaxandi í þjóðfélaginu og fleiri og fleiri þurfa að leita sér mataraðstoðar hjá mæðrastyrksnefnd og Rauða krossinum eða fjárhagsaðstoðar hjá Reykjavíkurborg.

Auk þess að vitna í ASÍ vil ég líka vitna í það sem félagsmálastjóri Reykjavíkur sagði þegar þessi tillaga var lögð fram í fyrra, en þá var einmitt haft viðtal við félagsmálastjóra sem sagði opinberlega að ástandið á leigumarkaðnum færi stöðugt versnandi. Biðlistarnir lengdust sífellt og fjöldi manns byggi við algerlega óviðunandi aðstæður. Orðaði hún það svo að hún gæti af fullri einlægni sagt að það hefði aldrei verið eins slæmt ástand á leigumarkaðnum í Reykjavík frá því að hún hóf störf sem félagsmálastjóri fyrir nokkrum árum.

Herra forseti. Við blasir sú staðreynd að loknu kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar að þrátt fyrir það góðæri sem við höfum búið við, þá skilur ríkisstjórnin við fólk á leigumarkaði og þá sem eru á biðlistum í algeru neyðarástandi, og leigumarkaðurinn og ástandið að því er varðar leiguíbúðir er komið í hreint öngstræti. Það sérkennilega er, herra forseti, að þessari miklu neyð sem ríkir hjá öllum þessum fjölskyldum hefur ríkisstjórnin svarað með sérstakri vaxtahækkun á húsnæðislán og lán þeirra sem við verst kjörin búa. Flestir þeirra sem eru á biðlistum eru einstæðir foreldrar, námsmenn, öryrkjar, lífeyrisþegar og tekjulágar barnafjölskyldur og hópur einstæðinga. Vextir hafa hækkað frá 1998 frá 1% í allt að 4,9% sem hækkað hefur leiguverðið verulega og þeir sem byggja leiguíbúðir, félagasamtök eða sveitarfélög, hafa engra annarra kosta völ en annaðhvort að hækka leiguna eða hreinlega hætta að koma á fót leiguíbúðum.

Viðbótarlánin sem áttu að vera ígildi félagslegra lána til eignaríbúða fyrir fólk sem býr við erfiðar aðstæður hafa hækkað úr 2,4% í 5,7% og 1% lánaflokkur til leiguíbúða hefur verið lagður af en því ber að halda til haga að áður fyrr, líka á tímum niðursveiflu í efnahagsmálum, var samstaða um það meðal þeirra sem þá fóru með stjórn landsins að þrátt fyrir erfiðar aðstæður í efnahags- og atvinnumálum var eining og sátt um að hafa aðeins 1% vexti á lánum til leiguíbúða. Það var sem sagt samstaða um að hér þyrfti að vera til félagslegur valkostur fyrir fólk sem hefði litlar tekjur og hefði enga möguleika á að koma sér upp sínu eigin húsnæði. Á þessu hefur núverandi ríkisstjórn ekki haft skilning og gert sér sérstakt far um að hækka vexti á leiguíbúðum.

Herra forseti. Þó að verulega miklar lánveitingar hafi verið veittar til þess að koma á fót leiguíbúðum í tíð núverandi ríkisstjórnar, þá er það svo að þegar lánskjörin og vextirnir nálgast orðið markaðskjörin er alveg sama hve mikið er látið í lán til að koma á fót þessum íbúðum, það eru ekki til neinir sem eru reiðubúnir til þess að byggja þær íbúðir, hvorki félagasamtök né sveitarfélög.

Herra forseti. Ég vil aðeins fara yfir þær aðgerðir sem við viljum grípa til. Þær þurfa bæði að ná til þeirra sem uppfylla skilyrði til að fá leiguíbúðir og eru á biðlistum en sá hópur fer stækkandi sem hvorki uppfyllir skilyrði til að fá leiguíbúðir né lánafyrirgreiðslu annarra aðila sem hafa það að markmiði að koma á fót leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum fyrir láglaunafólk og því viljum við breyta. Ástæða er til að nefna kaupleiguíbúðir sem ríkisstjórnin lagði af sem var verulegur kostur í húsnæðiskerfinu. Bæði gat fólk byrjað á því að leigja fyrstu fimm árin og síðan gat það að fimm árum liðnum ákveðið að kaupa viðkomandi íbúð ef hagur hefði vænkast. Eins voru almennar kaupleiguíbúðir sem ekki voru með neinum tekjumörkum sem voru kostur fyrir þá sem ekki voru innan tekjumarkanna.

[14:30]

Það sem við leggjum til er að stofnað verði til sérstaks lánaflokks hjá Íbúðalánasjóði þar sem settar verði samræmdar reglur og skilyrði fyrir slíkum lánum. Í fyrsta lagi leggjum við til að vaxtaendurgreiðsla og/eða stofnstyrkir, svo og húsaleigubætur tryggi að leigukjör fari ekki yfir 6% af stofnverði.

Við teljum að það sé afar mikilvægt að fara þá leið að miða við að leigugreiðslur fari ekki yfir 6% af stofnverði íbúðar en ef við það er miðað þá mundu leigugreiðslur duga til þess að standa straum af afborgunum og vöxtum af 95% láni, vöxtum af framlagi framkvæmdaraðila, fasteigna- og brunabótaiðgjöldum og viðhaldi íbúðar og sameignar.

Forsendur þessara útreikninga eru svipaðar og notaðar eru hjá sveitarfélögunum vegna leiguíbúða. Leiguverð á tveggja til þriggja herbergja íbúð gæti með þeim aðgerðum sem tillagan gerir ráð fyrir numið 25--30 þús. kr. á mánuði, og sjá menn að hér munar verulega þegar fólki á almenna leigumarkaðnum er gert að greiða fyrir þriggja herbergja íbúð kannski um 70--80 þús. kr. Nú er leigan á leiguíbúðum í félagslega kerfinu töluvert meiri eða sennilega um 45 þús. kr.

Við leggjum líka til að stimpilgjöld falli niður hjá framkvæmdaraðilum leiguíbúða, enda verði slík niðurfelling skilyrt útleigu á íbúðum. Jafnframt verði kannað hvort rétt sé að veita afslátt af gatnagerðargjöldum vegna byggingar slíkra íbúða.

Við leggjum til að leitað verði samstarfs við lífeyrissjóði um að styrkja átakið með kaupum á sérstökum húsnæðisbréfum. Við leggjum einnig til að tekjuskilyrði fyrir rétti til leiguíbúða verði rýmkuð fyrir fólk sem nú á hvorki rétt til almennra né félagslegra lána. Loks leggjum við til að ríkissjóður greiði 85% þess framlags sem til þarf til að ná því markmiði og sveitarfélögin 15%.

Við höfum látið skoða þessar tillögur okkar og teljum að með þeirri framkvæmdaáætlun sem við leggjum til til fjögurra ára og lögð verði fyrir Alþingi ásamt nauðsynlegum lagabreytingum, verði hægt að koma á fót 600 leiguíbúðum á ári á viðráðanlegum kjörum bæði fyrir þá sem eru að koma á fót þessum íbúðum og þá sem þurfa á leiguíbúðum að halda. Með þessari leið væri hægt að útrýma biðlistum á fjórum árum.

Herra forseti. Þegar þessi tillaga var flutt á síðasta þingi var einn liður í viðbót við þá sem ég hef talið hér upp sem var að afnema skatta af húsaleigubótum. Frá því á síðasta ári hefur verkalýðshreyfingunni tekist að knýja ríkisstjórnina til þess að hætta að skattleggja húsaleigubætur og því hefur sá liður fallið brott. En ég vil vekja athygli á því að láðst hefur að leiðrétta samsvarandi ákvæði í greinargerðinni að því er þennan þátt varðar og mun ég skoða hvort ekki sé þá ástæða til að prenta þingskjalið upp að nýju þannig að það bæti hér úr og tilgreini það sem rétt er í þessu, að það komst í gegn fyrir tilstuðlan verkalýðshreyfingarinnar að hætta að skattleggja húsaleigubætur sem var veruleg kjarabót fyrir þessa láglaunahópa.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Ég vona að þingið beri gæfu til þess að fara vel yfir stöðu láglaunahópa áður en þingi lýkur og stórt atriði í því er að taka á vandanum á leigumarkaðnum sem tillagan gerir ráð fyrir.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. félmn.