Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 15:00:01 (3931)

2003-02-18 15:00:01# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[15:00]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að bregðast við þessum athyglisverðu ábendingum hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Hann er að rifja upp hugmyndir þeirra um að lífeyrissjóðirnir gætu verið beinn eignaraðili að leiguhúsnæði, þeir gætu komið með fjármagn, en ríkið stæði að baki. Það má segja að þetta falli nokkuð að þeim hugmyndum og tillögum sem koma fram í tillögu okkar, Samfylkingarinnar, vegna þess að í d-lið tillögunnar er það nefnt að leitað verði samstarfs við lífeyrissjóði um að styrkja átakið með kaupum á sérstökum húsnæðisbréfum.

Ég tek alveg undir það með þingmanninum að ekki er óeðlilegt að lífeyrissparnaður landsmanna komi með einhverjum hætti að hagsmunamálum fjölskyldunnar og fátt er nú stærra en þessi mikli húsnæðiskostnaður. En mig langaði að benda á að þegar við vorum að ræða þessa tillögu fyrir tveimur árum þá kom hæstv. félmrh. skyndilega í ræðustól og fagnaði tillögu Samfylkingarinnar alveg sérstaklega. Hann lýsti því þá yfir að viðtæk samstaða væri að myndast um að bæta úr skorti á leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu með svipuðum hætti og við erum að setja fram og upplýsti um góðar undirtektir lífeyrissjóða, verkalýðshreyfingar og Samtaka atvinnurekenda um að koma að átaki og þá hugmynd að viðkomandi sveitarfélög leggi lóðir og gatnagerðargjöld fram sem hlutafé í eignarhaldsfélög sem lífeyrissjóðir og fleiri legðu fjármagn í. En hvað hefur gerst, virðulegur forseti? Hér eru hrikalegar tölur um leigu á markaði og þeim fjölgar stöðugt sem búa við bág kjör, ekki síst í húsnæðismálum og ekkert gerist í samræmi við þessa góðu viljayfirlýsingu sem sett var fram fyrir tveimur árum.