Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 15:04:03 (3933)

2003-02-18 15:04:03# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tillögu okkar eiga vaxtaendurgreiðslur, stofnstyrkir og húsaleigubætur að tryggja að leigukjör verði viðunandi og hjá okkur er miðað við að leigukjör fari ekki yfir 6% af stofnverði íbúðar. Mér finnst ekki meginmál hvort við förum nákvæmlega þessa leið sem við erum að leggja til eða hvort við getum blandað saman góðum tillögum. En eitt er alveg víst og það er að brýna fyrir fólki að sem allra flestir á Alþingi taki höndum saman og reyni að leita þeirra úrræða sem duga þannig að viðunandi sé fyrir fólk að vera á leigumarkaði.

Ég tók dæmi áðan um unga einstæða móður sem er að leigja íbúð í sveitarfélagi á félagslegum leigukjörum og leigan fyrir litla tveggja herbergja íbúð er 61.400 kr. Við getum rætt það fram og til baka hvernig kerfin eru og hvernig kerfin eigi að vera. En það blasir við að krónutala upp á 61.400 kr. er óviðunandi og að 19.500 í húsaleigubætur miðað við þessa leigu og miðað við lágmarkslaun, atvinnuleysisbætur og bætur almannatrygginga eru óviðunandi. Þess vegna þarf að endurskoða fjárhæðir húsaleigubótanna. Það þarf að fara í gegnum það hvernig við getum tekið á þessu máli og um það eigum við að taka höndum saman, þingið, sveitarfélögin, lífeyrissjóðirnir og allir sem að geta komið til að skapa það góða kerfi að fólk geti lifað hér af sínum lágu launum.