Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 15:20:07 (3939)

2003-02-18 15:20:07# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[15:20]

Kristján Pálsson (andsvar):

Hv. þm. er snillingur að snúa út úr. Ég verð að segja eins og er að það er út í bláinn að ég hafi sagt að ég vildi snúa vandanum einfaldlega yfir á sveitarfélögin. Það er náttúrlega alls ekki það sem ég sagði. Ég sagði að sveitarfélögunum væri í lófa lagið að fella niður fasteignagjöldin eða gatnagerðargjöldin ef þau kærðu sig um það. Það er þeirra tekjustofn. Auðvitað er það þeirra að taka ákvörðun um það, nema hv. þm. ætli sér að setja lög um að sveitarfélögin megi ekki leggja gatnagerðargjöld á leiguíbúðir. Vel má vera að það sé meiningin. Ég veit bara að sveitarfélögin kvarta mjög yfir því að sífellt sé verið að skerða tekjustofna þeirra og ég geri ekki ráð fyrir að þeir peningar verði teknir frá þeim öðruvísi en tapið verði þá bætt.

Ef ég skoða t.d. kostnað við leigu á einni íbúð --- þegar við fáum það út að 7 millj. kr. skuld með 3,5% vöxtum geti verið um 25 þús. kr. greiðslubyrði á mánuði er hún aðeins lægri en með þessum 6% sem hv. þm. talar um að eigi að vera hámark leigu miðað við stofnkostnað íbúða. Auðvitað yrði því 1% vaxtakostnaður lægri. Það þýddi lægri leigu. En þessi 6% sem hv. þm. talar um í sinni tillögu leiðir einfaldlega til þess að það gæti alveg orðið 42 þús. kr. leiga af 7 millj. kr. íbúð. (JóhS: Það eru aðrar aðgerðir sem ...) Þess vegna get ég ekki séð að mikill munur sé á því hvað hv. þm. ætlar að leggja á sem hámarksleigu og þeirri leigu sem væri hægt að taka af íbúðum sem eru núna í byggingu upp á 3,5% vexti.

Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þingmann um annað sem ekki kemur þessu við beinlínis eins og viðbótarlán og kjör aldraðra og annarra. Það er önnur umræða. Í þessu máli er ýmislegt verið að gera. Ég get samt alveg tekið undir það að eflaust má gera betur og það er sífellt verið að reyna það.