Reynslulausn

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 15:31:07 (3941)

2003-02-18 15:31:07# 128. lþ. 81.18 fundur 517. mál: #A reynslulausn# þál. 21/128, Flm. ÞKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Flm. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. sem fjallar um reynslulausn. Þessa þáltill. er að finna á þskj. 857. Hún er mál nr. 517. Flm. eru auk mín hv. þingmenn Jónína Bjartmarz, Guðrún Ögmundsdóttir og Ögmundur Jónasson.

Þáltill. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til að kanna og gera úttekt á veitingu reynslulausnar skv. 40.--42. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Kannað verði m.a. hversu algengt er að beita því úrræði, hvernig háttað er eftirliti með því að skilyrði reynslulausnar séu haldin og hversu mörg brot eru framin af einstaklingum á reynslulausn. Jafnframt verði sérstaklega kannað hvort ástæða sé til þess að breyta framkvæmd reynslulausnar á þann veg að það verði hlutverk dómara að ákveða hvort fangi skuli látinn laus til reynslu í stað Fangelsismálastofnunar ríkisins, sbr. 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga.``

Í greinargerðinni segir m.a., með leyfi forseta:

Reynslulausn er stjórnsýsluákvörðun sem fólgin er í því að fangi er látinn laus til reynslu þegar hann hefur afplánað tiltekinn hluta dæmds refsitíma. Samkvæmt heimild í 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga getur Fangelsismálastofnun ríkisins þannig ákveðið að fangi skuli látinn laus til reynslu þegar hann hefur afplánað 2/3 hluta refsitímans. Reynslan hefur verið sú að nær allir fangar fá reynslulausn ef þeir uppfylla skilyrði 40. gr. almennra hegningarlaga og eiga ekki mál í refsivörslukerfinu, þ.e. eiga ekki ódæmt í málum sem eru til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum á þeim tíma þegar umsóknir þeirra um reynslulausn koma til afgreiðslu.

Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er hér á landi byggt á þrískiptingu ríkisvaldsins. --- Það þekkjum við vel. --- Þannig fara Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið og dómendur fara með dómsvaldið. Hugsunin á bak við þrígreiningu ríkisvaldsins er sú að hver aðili --- þ.e. dómsvaldið, löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið --- fari með sína grein þess. Með 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga á sér hins vegar stað framsal valds frá dómsvaldi til framkvæmdarvalds. Þar er stjórnsýsluaðila þ.e. í 40. gr. falið að endurskoða ákvörðun dóms og breyta dómsorði sem upp hefur verið kveðið hjá innlendum dómstóli.

Framsal valds á milli þriggja þátta ríkisvaldsins er í ósamræmi við það sem stjórnskipan landsins byggist á. --- Þ.e. að mínu mati. --- Í framkvæmd hefur verið reynt að sporna við slíku framsali eftir fremsta megni þó svo að hægt sé að réttlæta slíkt í einhverjum tilvikum. Er hér sérstaklega átt við skýrt afmarkaðar og lögákveðnar reglugerðarheimildir ráðherra, þar sem erfitt er í framkvæmd að breyta lögum í hvert sinn sem útfæra þarf nánar tilgreindar reglur í gildandi löggjöf.

Í þessu samhengi, herra forseti, má velta því fyrir sér hvort ein leiðin við þessa endurskoðun verði sú að dómurum beri að kveða á um það hvort viðkomandi fangi eigi möguleika á reynslulausn eða ekki og þannig, ef við reynum að líkja þessu við Alþingi, að veita í rauninni framkvæmdarvaldinu reglugerðarheimild til að nýta þetta stjórnsýsluúrræði. En það er alveg ljóst að í augum flutningsmanna er 40. grein, þessi stjórnsýsluákvörðun sem reynslulausn er, ákveðið inngrip inn í dómsvaldið og því erum við flutningsmenn að leggja til að farið verði mjög vel yfir öll þessi atriði sem eru tiltekin í þáltill.

Flutningsmenn telja nauðsynlegt að kannað verði gaumgæfilega hvort rétt sé að takmarka það framsal valds sem á sér stað í 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga. Þannig má færa sterk rök fyrir því að óeðlilegt sé í ljósi þess sem að framan greinir að framkvæmdarvaldshafi --- í þessu tilviki Fangelsismálastofnun ríkisins --- geti breytt uppkveðnum dómi.

Jafnframt telja flutningsmenn nauðsynlegt að fram fari nákvæm könnun á reynslulausn í heild sinni sem refsigæsluúrræði og sérstaklega verði þá hugað að þeim atriðum sem hér hafa verið nefnd, ekki síst í ljósi þeirra ofbeldisbrota sem framin hafa verið undanfarið.

Í þessu samhengi hefur samfélagsþjónusta einnig verið oft nefnd. Það er kannski óháð þessu. Engu að síður má líkja því við þetta mál. Það er í rauninni úrræði líka sem Fangelsismálastofnun getur veitt föngum sem hafa fengið dóm, sex mánuði eða styttri. Hafa dómstólar m.a. bent á og merkar ritgerðir í lagadeild Háskóla Íslands hafa verið ritaðar um það, að þetta vald, þ.e. að ákveða hver eigi að meta það að viðkomandi fangi eigi að falla undir samfélagsþjónustu, eigi að heyra undir dómstóla líka, því að mörgu leyti er um það sama að ræða. Þetta er ákveðið inngrip inn í dómsvaldið.

En það er kannski seinni tíma mál. Hér erum við að ræða um reynslulausnina og ef maður veltir fyrir sér því ferli þegar reynslulausnin er tekin til skoðunar venjulega eftir 2/3 af afplánuðum tíma þá verður maður að huga að þeim sem hafa komið áður að málinu. Það eru dómstólar. Þeir hafa hlýtt á allan málflutning. Þeir hafa séð skýrslur. Það eru þeir sem hafa metið sekt eða sýknu og þeir meta líka hvað kemur til álita við dómsúrlausn, hvort atriði komi til refsihækkunar eða refsilækkunar. Það verður að segjast eins og er að þá er Fangelsismálastofnun yfirleitt ekki viðstödd flutning málsins og getur því ekki í rauninni metið af hverju viðkomandi fangi eigi að fá reynslulausn eða ekki. Því má í rauninni segja að óeðlilegt sé að þeir sem koma að þessari ákvörðun um reynslulausn hafi ekki einhvern tíma áður komið að viðkomandi sakamáli.

Síðan má líka tengja þetta enn þá stærra máli en það er um refsingar almennt og hvort að þyngja eigi refsingar. Það er alveg ljóst að meðan þetta stjórnsýsluúrræði er til staðar --- og menn átta sig kannski ekki alveg á hvenær því er beitt --- þá sjá menn að þegar verið er að auka refsiramma segjum úr sex árum í átta ár eða átta árum í tíu ár, þá gefur það ekki alveg rétta mynd af raunverulega afplánuðum tíma. Það er ekki hinn eðlilegi tími sem er kveðinn upp. Segjum að dómari kveði upp sex ára dóm. Þá er mjög líklegt að viðkomandi komi út eftir fjögur ár.

Ég held í ljósi þessa alls, herra forseti, að mikilvægt sé að hér verði um gegnsæi að ræða og að það verði að fara vel yfir það sérstaka og í rauninni óeðlilega ástand sem er fólgið í því að reynslulausn er stjórnsýsluákvörðun en ekki ákvörðun dómara. Ég held að rétt sé að fara einmitt þá leið sem flutningsmenn benda á, þ.e. að skipuð verði nefnd fagmanna til að kanna og gera úttekt á veitingu reynslulausnar og sérstaklega til þess, eins og ég gat um áðan, að auka gegnsæi í réttarkerfinu og ekki síður að auka réttaröryggi kerfisins.