Aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 15:57:16 (3944)

2003-02-18 15:57:16# 128. lþ. 81.19 fundur 546. mál: #A aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[15:57]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um till. til þál. um aðgang allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu. Ég ætla aðeins að fara nokkrum orðum um hana en hv. þm. Jón Bjarnason hefur farið yfir grg. hennar. Ég er meðflm. að henni ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni og Þuríði Backman. Tillagan fjallar um að Alþingi álykti ,,að fela samgönguráðherra að beita sér í krafti eignarhluta ríkisins í Landssíma Íslands fyrir því að fyrirtækið setji sér það markmið og hefjist þegar handa um að tryggja öllum landsmönnum aðgang að GSM-farsímakerfinu. Jafnframt felur Alþingi ráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til breytinga á fjarskiptalögum þess efnis að GSM-farsímakerfið verði skilgreint sem öryggis- og neyðarkerfi í byggð og á aðalþjóðvegum landsins``.

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða. Eins og menn vita hefur orðið gjörbreyting á áherslum og stjórn Landssíma Íslands eftir þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fyrirtækið skyldi selt. Stjórnin vinnur nú eftir öðruvísi áherslum þar sem kappkostað er að allar deildir og öll starfsemi Símans skili fullnægjandi arðsemi, eins og það er orðað, sem lið í því að gera fyrirtækið markaðshæft.

Við vitum öll að þessi aðferðafræði leiðir til þess að uppbygging stöðvast á hlutum eins og GSM-væðingu landsins á þeim svæðum þar sem, að mati stjórnarinnar, er ekki talið arðbært að setja slíka starfsemi upp. Þetta hafa landsmenn allir fundið, að mjög hefur hægt á uppbyggingu. Það er mjög miður vegna þess að GSM-tenging og notkun á GSM-símum er orðin mjög almenn og fólk gerir hreinlega kröfu um að það sé í símasambandi við vinnu og sín störf og náttúrlega ekki síst þegar fólk ferðast um landið.

[16:00]

Ég nefni sem dæmi að staðarhaldari á einum stórum ferðamannastað úti á landi kvartaði mjög yfir því að vöntun á GSM-tengingu inn á svæðið yrði þess valdandi að fólk hreinlega hætti við að slá sér niður, t.d. að tjalda eða stoppa með hjólhýsi sín á staðnum vegna þess að það hefði ekki slíka tengingu.

Gengið var í það mál fyrir ári síðan að tenging var sett upp við þennan ferðamannastað þannig að GSM-möguleikar opnuðust og þar með GSM-tenging. Gistinóttum sem áður höfðu verið 18 þús. fjölgaði upp í 24 þús. og staðarhaldari meinar að það sé að verulegu leyti að þakka GSM-tengingunni inn á það svæði. Hér er því um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir alla, gríðarlegt öryggismál, eins og hv. þm. Jón Bjarnason benti á þegar hann ræddi um tengingarmöguleika norður á Ströndum þar sem lögreglan á Hólmavík á við verulega örðugleika að etja hvað varðar símasamband þar sem ekki er GSM-tenging á svæðinu og þetta varðar öryggi landsmanna allra og vegfarenda sem þarna fara um.

Þess vegna er mjög mikilvægt að samþykkt sé till. til þál. af því tagi sem hér er sett fram þar sem fyrirtækjum er gert í krafti eignarhalds ríkisins að sinna því að byggja upp það öryggisnet sem við viljum hafa og þar er stór liður einmitt að hafa GSM-tengingu sem víðast um landið. Og það er nú algjör lágmarkskrafa að GSM-símtenging sé möguleg á aðalþjóðleiðum, aðalþjóðbrautum landsins, en eins og þeir vita sem ferðast mikið um landið er það mjög gloppótt og hefur á síðustu missirum ekki skánað í takt við það sem áður var. Ég held að meginskýringin sé sú að nýrri stjórn Landssímans er falið að leggja allt aðrar áherslur en áður var, þ.e. að hámarka arðsemi og að allar deildir skili fullnægjandi arðsemi, og þá er það náttúrlega augljóst að stjórn fyrirtækisins leggur ekki áherslu á uppbyggingu í dreifbýli og þá kannski sérstaklega ekki varðandi uppsetningu á búnaði til þess að ná GSM-tengingu í dreifbýli.

Þetta er algjörlega ótækt fyrir landið í heild sinni. Við þurfum á því að halda t.d. varðandi ferðamannaþjónustuna, sem er okkar næststærsta atvinnugrein, að slíkir hlutir séu í lagi. Þetta er stoðkerfi samfélagsins, fjarskiptin, og í okkar strjálbýla landi verða þessi mál að vera í lagi.

En umbreytingin á Landssíma Íslands þar sem á að hámarka arðsemina, undirbúa fyrirtækið undir markaðsvæðingu, gerir það auðvitað að verkum að menn leggja nýjar áherslur, þeir draga úr kostnaði, þeir setja kostnað yfir á notendur eins og hægt er og að sjálfsgöðu, miðað við þær forsendur sem hæstv. ríkisstjórn gefur stjórninni, fara menn ekki í uppbygingu á óarðbærum hluta dreifikerfisins miðað við þær aðstæður sem uppi eru í dag.

Virðulegi forseti. Þessi þáltill. fjallar um það og gefur í raun og veru ráðherranum fyrirmæli um að gefa stjórn Símans önnur skilaboð, þ.e. að lágmarka arðsemiskröfu, fara með hana niður og nota fyrirtækið til að sinna þessum félagslega þætti.

Þeir sem keyra fram markaðsvæðingu átta sig ekki á því að ef þeir keyra hana fram á þann hátt sem verið er að gera, þ.e. að umbreyta ríkisfyrirtæki í einkavæðingarhæft fyrirtæki, þá verða menn þó að taka á þessum málum eftir öðrum leiðum. Og þeir sem tala fyrir einkavæðingu ríkisfyrirtækja segja sem svo að þjónustan verði veitt, bara á annan hátt, með stofnframlagi ríkisins. Það er ekki tilfellið í neinum af þeim málum sem við erum að tala um í framhaldi af einkavæðingu eða undirbúningi ríkisfyrirtækja fyrir einkavæðingu, því miður. Það er sorglegt til þess að vita að staða okkar skuli vera þannig að við skulum vera komin með fjarskiptamálin hvað þetta varðar í status quo og heldur er þjónustan að fara niður á við en að uppbygging eigi sér stað. Það er vegna þeirrar stöðu sem stjórn Landssímans er í, undirbúningi fyrir einkavæðingu Landssímans og allt önnur markmið og sjónarmið uppi en að gera fjarskipti í landinu auðveld og ódýr og aðgengileg öllum.