Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 16:53:59 (3955)

2003-02-18 16:53:59# 128. lþ. 81.22 fundur 249. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[16:53]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem hingað til að lýsa yfir stuðningi mínum við þessa breytingu sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz, Árni R. Árnason, Gunnar Birgisson og Ásta Möller leggja til á lögum um innflutning dýra sem eru að stofni til frá 1990. Ég minni á að síðast þegar fjallað var um þessi lög --- það var á 126. löggjafarþingi 2000--2001 --- kom það mjög skýrt fram í máli hæstv. landbrh. að hann hafði ekki hug á að leyfa rekstur sóttvarnastöðva annars staðar en í Hrísey. Þess vegna lögðum við sem vorum þá 1. minni hluti hv. landbn., ég og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, fram brtt. sem hljóðar akkúrat eins og þessi tillaga sem hér er flutt, þ.e. að landbrh. skuli veita fleirum heimild til að starfrækja sóttvarna- og einangrunarstöðvar. Því miður var sú breyting felld hér á hv. Alþingi sem ég tel mjög miður. Þegar þessi lagabreyting var afgreidd lá fyrir að það var mikil stemmning, t.d. meðal gæludýraeigenda og dýraverndunarsamtaka, fyrir að þarna yrði breyting á og að leyfður yrði rekstur fleiri sóttvarnastöðva.

Nú skal það tekið fram að það er auðvitað algjör samstaða um það í þinginu að um þetta skuli gilda mjög strangar reglur og þeim skuli vera ákaflega vel framfylgt. Ég held að það sé náttúrlega ekki grundvöllur fyrir rekstri margra slíkra stöðva í landinu. Ég tel þó að það sé a.m.k. grundvöllur fyrir rekstri einnar slíkrar stöðvar til viðbótar, t.d. einhvers staðar í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Það liggur fyrir að það fyrirkomulag sem viðgengst nú í dag, þegar verið er að flytja inn gæludýr sem fólk hefur átt erlendis eða er að kaupa sér og þau eru flutt í gegnum Keflavíkurflugvöll og sem leið liggur norður í Hrísey, að með þeim tíma sem flutningurinn tekur og mögulegum aðbúnaði á þessari leið er ekki kleift að halda reglur Evrópusambandsins, t.d. um flutning dýra, auk þess sem margir veikir punktar eru í þessu ferli hvað varðar sóttvörn og einangrun. Eins kom mjög greinilega fram á þinginu 2000--2001 í umsögn Hundaræktarfélags Íslands, sem ég óska að fá að lesa upp hér, telst félagið tvímælalaust til þeirra félagasamtaka þar sem félagsmenn eru flestir að flytja hunda til Íslands. Þeir segja, með leyfi hæstv. forseta:

,,Langvarandi óánægja hefur ríkt meðal gæludýraeigenda vegna staðsetningar einangrunarstöðvar fyrir gæludýr á Íslandi. Sú staðreynd liggur fyrir að 95% innflytjenda gæludýra búa á Suðurlandi eða Suðvesturlandi. Þótt einangrunarstöð hafi í upphafi verið sett upp svo fjarri heimilum innflytjenda dýranna er ljóst að staðsetningin er barn síns tíma og hefur fleiri ókosti en kosti. Í ljósi þessara upplýsinga er kominn tími til að leyfður verði einkarekstur á einangrunarstöðvum fyrir gæludýr á Íslandi. Hundaræktarfélag Íslands telur að samkeppni á því sviði muni koma innfluttum gæludýrum og eigendum þeirra til góða.``

Í tengslum við afgreiðslu þessarar lagabreytingar sem samþykkt var 2000--2001 var einnig safnað undirskriftum til að skora á hæstv. landbrh. að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Áskorunin sem var yfirskrift undirskriftanna hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ástandið í innflutningsmálum gæludýra hefur verið óþolandi um langa hríð. Einangrunarstöð ríkisins í Hrísey hefur aldrei annað eftirspurn og álagi.`` --- Það hef ég sannfrétt, herra forseti, að ástandið hafi að vísu lagast í þessum málum eftir að stöðin var stækkuð en samt sé alltaf biðlisti. Og áfram segir í þessari áskorun: ,,Dýraeigendur hafa þurft að bíða mánuðum saman eftir plássi í óvissu og skipulagsleysi sem einokunarstarfsemin býður upp á. Staðsetning stöðvarinnar gerir flutning dýranna áhættusaman og erfiðan fyrir dýrin auk þess sem staðsetning og reglur um heimsóknir hafa hindrað eigendur dýranna í að hafa eðlilegt aðhald með starfsemi stöðvarinnar.``

Svo á að heita að samkvæmt lögum verði öll dýr sem koma til landsins að fara í einangrun en framkvæmdin hefur verið mjög mismunandi. Undanfarið hefur ríkt ófremdarástand á innflutningi hunda og katta til Íslands vegna plássleysis í Hrísey og nú, eftir stækkunina sem ég minntist á áðan, gerði það samt sem áður ekki betur en svo að stytta biðlistana um helming.

Ég verð að segja að mér þykja vera komin mikil og sterk rök fyrir því að leyfa rekstur annarrar einangrunarstöðvar og þar sem hæstv. landbrh. hefur því miður ekki hingað til nýtt þá heimild sem hann hefur lögum samkvæmt tel ég mjög brýnt að gera þá breytingu á lögunum sem hv. þm. gerir ráð fyrir og áður hefur komið fram í brtt. að það ,,skuli`` starfrækja einangrunarstöðvar og landbrh. gefi út leyfi fyrir rekstri slíkra stöðva. Ef umsækjendur uppfylla öll skilyrði, öll þessi ströngu skilyrði sem sett eru varðandi rekstur sóttvarnastöðva, er alveg sjálfsagt mál að þeir fái til þess leyfi, það verði ekki hægt að hafna því.