Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 17:02:34 (3956)

2003-02-18 17:02:34# 128. lþ. 81.22 fundur 249. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., Flm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[17:02]

Flm. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir að hafa tekið vel í þetta frv. Það er rétt að árið 2000 lagði nokkur hópur þingmanna fram brtt. við frv. í svipaða veru og þessa. Ég studdi það ekki á sínum tíma og það var bara ósköp einfaldlega út af því að það er lögfræðilega betra að hafa heimildarákvæði í lögum en að skylda ráðherra eða embættismenn til ákveðinan athafna. Þess vegna er mun betra að hafa heimildarákvæði í lögum. En því miður hefur það sýnt sig á þessu ferli sem hefur verið síðan lögin tóku gildi að þessi heimild hefur ekki verið nýtt. Það er alveg greinilegt að þegar við ræddum þessi lög á sínum tíma að þá var ljóst í mínum huga að hæstv. landbrh. ætlaði sér að nýta þessa heimild og m.a. kom það fram á mörgum fundum. Ég sótti t.d. tvo fundi með árs millibili, fjölmenna og mjög góða fundi hjá Hundaræktarfélaginu þar sem þessi vilji landbrn. og ráðherra kom mjög skýrt fram. En einhverra hluta vegna hefur þessi vinna dregist. Ég veit að unnið er að þessu í ráðuneytinu og að ætlunin er að koma með þessa reglugerð á næstu vikum. Reyndar hefur manni verið sagt það áður þannig að maður svona efast.

En ég undirstrika, og tek undir með hv. þm. eins og fram kom áðan, að það er ekki verið að slaka á þessum kröfum sem við gerum til sóttvarna. En það er verið að koma til móts við sjálfsagðar og eðlilegar kröfur nútímans, að jafnræðissjónarmiða sé gætt á öllum sviðum.