Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 17:14:12 (3961)

2003-02-18 17:14:12# 128. lþ. 81.22 fundur 249. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., Flm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[17:14]

Flm. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvers konar útúrsnúningar og ómerkilegheit þetta eru hjá hv. 6. þm. Reykn. Í fyrsta lagi felldi ég ekki brtt. hv. þingmanns. Í öðru lagi fagna ég því sérstaklega hvernig bæði hv. þm. og ég sjálf ásamt fleiri þingmönnum í þessum þingsal erum tilbúin til þess að veita þessu máli brautargengi. Það er kjarni málsins. Það er meginkjarninn.

Síðan veit hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson það líka sem einn af forsetum þingsins að ég lagði þetta frv. líka fram í fyrra. Það fékkst ekki afgreitt. Ég lagði það strax fram á fyrstu dögum þingsins og það er fyrst núna að komast á dagskrá. Því er mjög ómerkilegt að halda því fram að ég sé að fá það hérna og ræða þetta nokkrum vikum fyrir kosningar. Það er ómerkilegt og ekki sæmandi jafnágætum manni og hv. þm. er.

Varðandi áhuga hv. þingmanna og áhuga hæstv. ráðherra þá er alveg ljóst að á fundum sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson mætti ekki á, t.d. á mjög fjölmennum fundi hjá eigendum gæludýra, hundaræktendum og fleirum --- tvisvar sinnum, tvö ár í röð mætti hann ekki. En ég mætti þar engu að síður og fann fyrir miklum áhuga eins og hv. þm. eflaust veit. Hv. þm. mætti þar ekki. Engu að síður er vilji okkar alveg skýr, þ.e. að leyfðar verði einangrunarstöðvar á fleiri stöðum en fyrir norðan. Það er meginkjarninn. Að koma hérna með útúrsnúninga og dylgjur finnst mér ekki sæmandi. Við eigum frekar að fylkja okkur um þetta ágæta frv., veita því brautargengi þannig að fleiri geti rekið einangrunarstöðvar en þeir norðan heiða.

Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir kom t.d. með ágætishugmynd því að á Suðurnesjunum er m.a. ágætisaðstaða til þess að reka slíkar stöðvar.