Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 17:16:20 (3962)

2003-02-18 17:16:20# 128. lþ. 81.22 fundur 249. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[17:16]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg óþarfi að fyrtast við þó að menn reki veruleika máls. Það breytir því ekkert að fyrir tveimur árum var felld hér brtt. við frv. sem er efnislega nákvæmlega samhljóða því frv. sem hér er verið að flytja. Ég skal hlusta á skýringar hv. þm. í þá veru að hún hafi áttað sig á því að það var rangt hjá henni og félögum hennar í stjórnarmeirihlutanum og hv. þm. öðrum að fella það frv. og strax á síðasta þingi hafi verið reynt að bæta fyrir þau mistök með því að flytja þetta frv. hér, og aftur á yfirstandandi þingi. Ég skal hlusta á þau sjónarmið. En það breytir auðvitað ekki hinu að tækifæri var fyrir tveimur árum. Því tækifæri klúðraði stjórnarmeirihlutinn, stóð fastur á því. Ég veit ekki hvaða þrýstingur hefur þar verið í gangi, herra forseti, að eingöngu í Hrísey skyldu slíkar stöðvar vera til staðar. Ég veit ekki hvort það hefur verið þrýstingur einhvers staðar utan af landi, e.t.v. hjá þingmönnum einstakra kjördæma. Ég kann ekkert á það. Hitt veit ég að það var eðlileg krafa þeirra sem flytja inn gæludýr að þeir ættu þess kost að sækja þessa þjónustu með ódýrari hætti á fleiri stöðum á landinu og þá ekki síst á suðvesturhorninu því að þessi dýr koma langflest, ef ekki öll, um Keflavíkurflugvöll.

Allt að einu, þetta er sá veruleiki sem við okkur blasir. Það stendur auðvitað ekkert á okkur í Samfylkingunni að samþykkja frv. í þessa veru. Okkar ,,rekord`` er alveg skýr í þessu. Við fluttum þetta sama mál fyrir tveimur árum. Þá felldi stjórnarmeirihlutinn það. Nú hefur stjórnarmeirihlutinn skipt um skoðun að því er virðist og komi hann fagnandi.