Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 17:50:39 (3972)

2003-02-18 17:50:39# 128. lþ. 81.21 fundur 207. mál: #A stjórnarskipunarlög# (landið eitt kjördæmi) frv., Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[17:50]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til stjórnarskipunarlaga sem ég flyt ásamt öllum öðrum hv. þm. Samfylkingarinnar. Samtals erum við 17 talsins eins og kunnugt er.

Í stuttu máli sagt gerir frv. ráð fyrir því að gerð verði breyting á kjördæmaskipan, raunar skipan sem nú verður kosið eftir í fyrsta skipti á komandi vori, og breytingin verði þannig að landið allt verði gert að einu kjördæmi og þeir 63 þjóðkjörnu þingmenn sem hafa verið kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára verði það að sjálfsögðu áfram en nú allir frá kjördæminu Íslandi.

Enn fremur kveður 1. gr. frv. --- en auk hennar er 2. gr. um gildistöku frv. --- á um að hver samtök fái þingmannatölu í samræmi við heildaratkvæðatölu sína og enn fremur að þau stjórnmálasamtök komi þó ein til álita við úthlutun þingsæta sem hlotið hafa minnst fjögur af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.

Herra forseti. Tæpast hefur annað mál hlotið jafnlangvarandi og ítarlega umræðu fyrr og síðar en kjördæmamálið og skoðanir hafa gjarnan verið mjög skiptar um það eins og kunnugt er og oft var tekist mjög hart á um viðhorf í þeim efnum. Ég var meðal þeirra sem sátu í síðustu nefnd sem um þau mál véluðu. Sú nefnd komst að samkomulagi um allróttækar breytingar á skipan kjördæma í landinu eins og kunnugt er, sem m.a. fela það í sér að kjördæmum er nú fækkað úr átta í sex talsins og einnig er fest í stjórnarskrá að mismunun atkvæða milli landshluta megi aldrei verða meiri en einn á móti tveimur, en hér á árum áður var svo háttað til að sum fámennari kjördæmi höfðu allt að fjórfalt meira atkvæðavægi en þau kjördæmi sem fjölmennust voru á suðvesturhorninu. Í því samhengi var athyglisverð forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag þar sem raktar voru bráðabirgðatölur Hagstofu Íslands frá 1. desember sl., þ.e. árið 2002, þar sem rakinn var fjöldi íbúa á kosningaaldri í hverju kjördæmi. Þar kemur í ljós að nú þegar, u.þ.b. sex mánuðum fyrir kosningar, er munur á atkvæðavægi orðinn meiri en tvöfaldur. Þess ber þó að geta að í núgildandi lögum um kosningar verður þetta ekki leiðrétt fyrr en að afloknum næstu kosningum. Um það var sérstakt samkomulag. En þessar tölur Morgunblaðsins sýna að fjölmennasta kjördæmið í komandi kosningum verður Suðvesturkjördæmi með 48 þúsund kjósendur og verða þeir vafalaust fleiri þegar kosningadagur rennur upp. Hér er miðað við, eins og ég sagði áður, 1. desember sl. En fámennasta kjördæmið er Norðvesturkjördæmi með 21.625 kjósendur. Suðvesturkjördæmi er með 11 þingmenn í komandi kosningum en Norðvesturkjördæmi tíu, en það breytir því ekki að mismunurinn er orðinn meiri en einn á móti tveimur.

Þetta vildi ég segja í framhjáhlaupi um stöðu mála og undirstrika enn og aftur að flokkur minn tók heils hugar þátt í þeirri sátt sem gjörð var til þess að okkur miðaði fram á veg varðandi það að leiðrétta þetta misvægi atkvæða sem var orðið óþolandi og ekki var hægt að una við lengur. Í því samhengi er rétt að rifja upp að margar tilraunir hafa að sönnu verið gerðar til þess að takast á hendur það verkefni að lagfæra og gera betrumbætur á hinu íslenska kosningakerfi. Stærsta einstaka breytingin var auðvitað 1959 þegar við fórum frá einmenningskjördæmum til þess fyrirkomulags sem þekkst hefur allar götur síðan og hlutfallskosningar voru teknar upp.

Einu stóru breytingarnar sem gerðar voru frá 1959 til dags dató eða þeirra kosninga sem innan seilingar eru var árið 1987. Þær voru þó fyrst og síðast tæknilegar. Þingmönnum var fjölgað og vissulega var gerð ákveðin breyting til bóta. En stóra breytingin var einmitt núna. Að minni hyggju er stóra breytingin í því kosningakerfi sem við búum við í dag sú að kjördæmin hafa stækkað landfræðilega. Þingmönnum hefur fjölgað í einstökum kjördæmum þannig að hægt og bítandi færumst við til þeirrar áttar að þingmenn líti á sig sem fulltrúa stórra landshluta. Ég vil líka halda því fram að í stórauknum mæli sé málum þannig fyrir komið að þingmenn líti fyrst og síðast á sig sem þingmenn þjóðarinnar allrar, og líti þar til heildarhagsmuna, en í minnkandi mæli sem fulltrúa héraðssjónarmiða, einstakra sveitarfélaga, einstakra byggðarlaga stórra eða smárra og það er að minni hyggju þróun í rétta átt.

Nú hefur því gjarnan verið haldið fram að vegna þeirrar tillögu sem ég er að kynna og jafnaðarmenn standa að baki, og Samfylkingin stendur heils hugar að baki, að með þessum hætti sé verið að ganga á hlut hinna dreifðari byggða. Það er algerlega af og frá. Það er auðvitað fyrst og síðast á valdi þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram hvernig þeir skipa sínum málum. Sá stjórnmálaflokkur sem ætlar að sækja sér stuðning og skilning vítt og breitt um landið stillir auðvitað sínum framboðslistum þannig upp að þeir höfði til kjósenda vítt og breitt um landið og þannig verður það auðvitað. Það út af fyrir sig er ekki vandamál sem ég sé í þessu samhengi.

Einnig er rétt að undirstrika að ef landið allt er gert að einu kjördæmi næst í einu vetfangi fullkominn jöfnuður milli kjósenda og þetta margumrædda misvægi atkvæða verður ekki lengur til staðar. Kosningakerfið er að sama skapi mjög einfalt og auðskilið. Þörfin fyrir uppbótarþingsæti verður ekki til staðar lengur þannig að flókið og stundum nánast illskiljanlegt og óskiljanlegt millifærslukerfi þarf ekki að fylgja kosningakerfinu. Þá liggur algerlega ljóst fyrir að þeir stjórnmálaflokkar sem bjóða fram fá þann þingmannafjölda sem greidd atkvæði segja til um. Þar er ekkert misvægi á.

Vissulega eru gallar á öllum mannanna verkum og þeir gallar sem bent hefur verið á og sú gagnrýni sem fram hefur komið og á sumpart rétt á sér hefur m.a. snúið að því að stjórnmálaflokkarnir og þá einkanlega þeir stærri hafi einir og sér of mikið um það að segja hverjir setjist á þing að afloknum kosningum. Stóru stjórnmálaflokkarnir eins og Samfylkingin, sem samkvæmt skoðanakönnunum hefur núna 25--26 þingmenn, þ.e. ef við gæfum okkur að það héldist þá gætu menn haldið því fram miðað við það að landið væri allt gert að einu kjördæmi og skipan mála væri með þeim hætti að fámennur hópur tæki um það ákvörðun hver skipaði fyrstu 25--26 sætin að leiða mætti að því líkur að fyrstu 20 sætin væru nánast örugg þingsæti og þyrfti ekkert að kjósa. Svipað, þó ekki í jafnmiklum mæli ef miða mætti við skoðanakannanir, mætti segja um Sjálfstfl., en þó alls ekki í jafnmiklum mæli nú í seinni tíð. Að þessum sjónarmiðum er rétt að huga. Þess vegna er þess getið í greinargerð með þessu frv., og er það veigamikið atriði í mínum huga, að menn skoði í þessu samhengi við nauðsynlegar breytingar á kosningalögum það sem þekkist víða erlendis, m.a. í nágrannalöndum okkar Írlandi, Danmörku og raunar víðar, að kjósendur hafa á kjördegi talsvert um það að segja hvaða einstaklingum þeir vilji veita brautargengi. Þeir hafi með öðrum orðum fleiri en eitt atkvæði á kjördegi, hafi annars vegar tök á því að styrkja og styðja og krossa við þann flokk sem þeir fylgja að málum en enn fremur hafi þeir talsvert ráðrúm til þess að krossa við þá einstaklinga sem þeir vilja sjá setjast á Alþingi Íslendinga. Jafnvel væri hugsanlegt að ganga svo langt að þeir gætu farið á milli flokkslista í þessu sambandi, að ekki væri eingöngu um það að ræða að kjósendur gætu endurraðað á listum flokkanna eða strokað út nöfn heldur kosið jafnvel á öðrum listum einstaklinga og veitt þeim þannig brautargengi. Þetta hefur stundum verið nefnt hið svokallaða kjörbúðarfyrirkomulag. Þetta er mál sem mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að menn skoði.

[18:00]

Annað sem menn hafa líka velt vöngum yfir er hvort festa eigi betur í sessi prófkjör flokkanna þannig að tryggt sé að almennir kjósendur fái aðkomu að skipan framboðslista. Það finnst mér líka fyllilega koma til álita. Það er auðvitað ýmislegt sem skoða þarf í þessum málum en mest er um vert að minni hyggju að hér er gengið þannig til verka, og þessum grundvallaratriðum sem ég nefndi fyrr í tölu minni er haldið til haga. Lýðræðinu er sýnd virðing, kjósendum er sýnd virðing, landinu öllu er sýnd nauðsynleg virðing. Fólk er ekki dilkadregið eftir því hvort það býr á suðvesturhorninu eða annars staðar á landinu. Mikilvægt er að þingmenn þjóðarinnar upplifi sig sem þingmenn þjóðarinnar og séu það í raun en ekki einstakra héraða.

Við flm. verðum þess vör að fylgi við þessi sjónarmið fer vaxandi, ekki eingöngu meðal almennra kjósenda heldur ekki síður meðal annarra flokka. Þess hefur orðið vart á hinu háa Alþingi í umræðum um viðlíka mál að einstaka þingmenn, sem ekki voru frægir fyrir það á árum áður að lýsa yfir stuðningi við sjónarmið af þessum toga, hafa verið að koma til byggða og hafa lýst yfir stuðningi við málin. Slíka stuðningsmenn er bæði að finna í Framsfl. sem og í Sjálfstfl. Allt er það fagnaðarefni. Ég geri mér hins vegar ljóst og væntanlega aðrir flm. að þess mun tæpast að vænta að þetta stóra mál fái brautargengi á þeim örfáu dögum sem eftir lifa þar til við ljúkum þessu þingi á kosningavetri. Ég vildi þó engu að síður, og við flm., halda því til haga og þeim sjónarmiðum sem í því liggja og höfum því flutt þetta mál á yfirstandandi þingi og á umliðnum þingum. Við teljum rétt og eðlilegt að það fái sinn framgang, væntanlega í sérnefnd þingsins um stjórnarskipunarmál.