Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 18:10:01 (3973)

2003-02-18 18:10:01# 128. lþ. 81.21 fundur 207. mál: #A stjórnarskipunarlög# (landið eitt kjördæmi) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[18:10]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að taka það fram að ræða 1. flm., hv. 6. þm. Reykn., Guðmundar Árna Stefánssonar, er mjög ósannfærandi, einkum það sem laut að því að öðruvísi menn og konur munu að sjálfsögðu veljast til framboðs ef landið yrði eitt kjördæmi heldur en ef það skiptist í mörg kjördæmi. Ég hygg að í málflutningi hv. þingmanns hafi verið tæpt á ýmsu sem þessi breyting hefur ekki áhrif á, eins og það sem hér er talið upp og sagt að kostir þess að landið verði eitt kjördæmi séu augljósir, þar á meðal að ,,stjórnmálaflokkar fá þann þingmannafjölda sem atkvæði þeim greidd segja til um``. Málið er þennig vaxið nú þegar og er svo um ýmislegt annað sem hv. þm. taldi fram. Hann kom á hinn bóginn hvergi að því sem er kjarni málsins, hvort hætta væri á því að þingmenn hyrfu í þeim skilningi að þeir þyrftu ekki að standa frammi fyrir sínum sérstöku kjósendum, heldur birtust eins og t.d. einstakir borgarfulltrúar R-listans hafa gert á undanförnum árum, sem varla nokkur maður veit hverjir eru. Má kannski segja að það geti verið gott fyrir suma hv. þm. að hverfa þannig í þögnina.

Ég hygg á hinn bóginn að það sé mikilsvert fyrir Alþingi að sterkir persónuleikar séu þar, menn sem þurfa að bera sjálfir ábyrgð á því sem þeir segja og gera og þurfa persónulega sjálfir að standa frammi fyrir kjósendum og skýra verk sín.