Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 18:16:40 (3976)

2003-02-18 18:16:40# 128. lþ. 81.21 fundur 207. mál: #A stjórnarskipunarlög# (landið eitt kjördæmi) frv., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[18:16]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þykist næsta viss um að hv. þm. Karl V. Matthíasson nýtur náðar þess sem allt kann og veit. En pytturinn sem hv. þm. Halldór Blöndal datt í var að fara yfir hina tæknilegu útfærslu mála. Í því hafa nefnilega gallar þeirra kerfa sem við höfum búið við legið. Það hefur skipt verulegu máli hvort menn notuðu d'Hondt-reglu, hvort menn notuðu hinar stærstu leifar, hvort menn notuðu Lague-regluna og hvort menn hefðu einu uppbótarþingsætinu eða jöfnunarþingsætinu fleira eða færra. Menn grípa auðvitað til tæknilegra útfærslna, flókinna og erfiðra, til að tryggja það að heildarþingmannafjöldi einstakra flokka sé í samræmi við heildaratkvæðamagn þeirra. Þetta hefur verið höfuðverkurinn í gegnum tíðina. Þess vegna hefur íslenska kosningakerfið oft verið svo flókið og illskiljanlegt að það hefur ekki verið á færi nema örfárra að fá nokkurn botn í það. Þess vegna legg ég mikla áherslu á að þessi nálgun, að gera landið allt að einu kjördæmi, kallar ekki á slíkar flóknar viðbótarráðstafanir, útskýringar eða vernd til að tryggja þessi grundvallargildi.

Af því að hv. þm. fór að velta því fyrir sér hvað átt væri við í tillögu okkar þá er þess raunar getið á bls. 3 í greinargerð. Flutningsmenn miða við d'Hondt-regluna sem hefur verið notuð lengst af hér á landi. Það fer auðvitað ekki á milli mála hvernig menn vilja nálgast það viðfangsefni en það er auðvitað aukaatriði. Meginatriðið er hin stóra mynd og hin gullna lína í málinu. Ég segi það, herra forseti, og árétta að ég hef enga ástæðu til að ætla að hér veljist verri menn eða betri menn til þings þó að menn nálgist það að kjósa menn til Alþingis á þann veg sem hér er gert ráð fyrir eða hvort menn geri það gegnum einmenningskjördæmi eins og gert var 1959, sem mér heyrðist hv. þm. horfa mest til.