Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 18:19:10 (3977)

2003-02-18 18:19:10# 128. lþ. 81.21 fundur 207. mál: #A stjórnarskipunarlög# (landið eitt kjördæmi) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[18:19]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Við erum að ræða mikilsvert mál. Umræðan hefur í kjölfar breytinganna sem nú hafa orðið farið í þann farveg að flestir sem um þessi mál tala vilja skoða vandlega hvort ekki væri betra að gera landið að einu kjördæmi en hafa þetta fyrirkomulag sem nú er. Ég held ég geti tekið undir allt sem hv. framsögumaður sagði um þetta. En mig langar til í viðbót að tala um það sem mér finnst þurfa að fylgja með í þessu öllu.

Ég lít þannig á að það þurfi helst að haldast í hendur, ef við gerum landið að einu kjördæmi, að við styrkjum sveitarfélögin, gerum þau stærri og öflugri og færum til þeirra verkefni. Um leið og það gerðist mundi Alþingi verða óháðara framkvæmdarvaldinu en nú er. Það þarf að frelsa Alþingi undan framkvæmdarvaldinu.

Reynum að sjá fyrir okkur í náinni framtíð þessa mynd sem ég er að draga upp, þ.e. öflug sveitarfélög sem tækju til sín verkefni frá ríkinu. Alþingi fengist þá fyrst og fremst við löggjöf en væri ekki eins konar framlenging af framkvæmdarvaldinu eins og hv. þingmenn eru oft og tíðum. Mér finnst það allt skipta máli í þessari umræðu.

Ég hef ekki áhyggjur af því að það verði ekki hægt að velja með eðlilegum hætti þingmenn á lista þeirra flokka sem bjóða fram. Ég bendi einfaldlega á að öll vandamálin sem eru í því fólgin að hafa landið í einu kjördæmi hafa þegar komið upp í þessum stóru landsbyggðarkjördæmum. Við erum með þau vandamál. Við erum með þann vanda sem skapast af því að langt er á milli bæja í kjördæminu. Fólk hefur heimasjónarmið og vill hafa fulltrúa frá einstökum svæðum. Þetta hafa menn fengið að reyna í aðdraganda þeirra kosninga sem nú eru fram undan. Menn hafa þurft að glíma við það hvernig raða eigi frambjóðendum niður í hin stóru og víðáttumiklu kjördæmi. Þetta mundi ekki breytast sérlega mikið þó landið væri orðið eitt kjördæmi, frá þeim stórum kjördæmum sem ég hef nefnt til sögunnar.

Ég sé það fyrir mér að það geti farið fram skoðanakannanir eða prófkjör í hinum einstöku landsvæðum sem flokkarnir mundu nýta sér niðurstöðuna úr vegna þess að menn væru búnir að velja sér fulltrúa sem flokkarnir mundu svo á landsvísu raða á lista sína. Ég sé ekki að það væri mikið vandamál. Ég sé líka fyrir mér að þegar Alþingi yrði frelsað undan því oki sem það er á stjórnarþingmönnum að þurfa að hlýða framkvæmdarvaldinu í einu og öllu munu menn líta allt öðrum augum á það að velja þingmenn til löggjafarsamkomunnar en menn gera í dag, einfaldlega vegna þess að það væri verið að velja þá til löggjafarstarfa en ekki til að annast kjördæmafyrirgreiðslu út frá Alþingi eins og sumir hafa litið á hlutverk sitt kannski meira en góðu hófi gegnir stundum.

Hv. þm. Halldór Blöndal talaði um það áðan að það yrðu öðruvísi menn og konur á þingi ef landið yrði að einu kjördæmi. Ég veit ekki hvað hv. þm. átti við með því. Ég vona sannarlega að hann hafi átt við það sama og ég var að segja, að hann sæi fram á að hér yrði fyrst og fremst löggjafarsamkoma að störfum en ekki framlenging á framkvæmdarvaldinu og handauppréttingavélar fyrir ríkisstjórn, eins og stundum virðist við lýði.

Þetta var kannski það sem ég vildi helst koma að. Ég tel ástæðu til að ræða þetta frv. Mér finnst að í tengslum við þann feril sem þessi mál fara vonandi í þurfum við að herða á eflingu og stækkun sveitarfélaganna og breytingum af því tagi sem ég nefndi áðan í tengslum við það.