Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 18:24:19 (3978)

2003-02-18 18:24:19# 128. lþ. 81.21 fundur 207. mál: #A stjórnarskipunarlög# (landið eitt kjördæmi) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[18:24]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það hefur verið svo á síðustu árum að kjósendur hvarvetna á landinu hafa lagt meiri áherslu á það en áður að þeir gætu haft beinni áhrif á hverjir veldust á þing. Þeim finnst þessi stóru kjördæmi vera of stór til að hægt sé að búast við því að fólk þekki þingmann sinn eða þingmenn og geti leitað til þeirra eða haft áhrif á þá til góðra verka ef sérstök málefni knýja á eða með öðrum hætti.

Menn hafa líka verið að velta fyrir sér hvort rétt væri að hafa kosningaskipan með því tagi að alþingismenn séu númeraðir. Menn hafa velt upp þeim möguleika hvort leyfa eigi kjósendum sjálfum að velja röð alþingismanna, þannig að þeim verði t.d. raðað upp í stafrófsröð eða með öðrum hætti á lista flokkanna. Menn hafa líka velt fyrir sér hvort skynsamlegt sé að gefa kjósendum kost á að kjósa fleiri en einn flokk með þeirri röksemd að það séu góðir menn í fleiri en einum flokki og einnig með þeirri röksemd að menn hafi misst jafnvægi á Alþingi og telji mikilsvert að ákveðnir einstaklingar nái kjöri þó að flokkur þeirra sé kannski ekki eins stór og viðkomandi menn vilja. Með því að ákveða að þingmenn skuli vera 63 og allir kjörnir í sama kjördæminu --- ég veit ekki af hverju þeir hugsa sér að þingmenn skuli endilega vera 63 --- er ekki hægt að koma neinu slíku við. Áhrif kjósenda á það hverjir veljist á þing verða af þeim sökum minni en nú er.