Stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 13:46:42 (3985)

2003-02-19 13:46:42# 128. lþ. 83.1 fundur 505. mál: #A stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[13:46]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessar fyrirspurnir og jafnframt fyrir að hafa bætt við einni í máli sínu.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hefur tekist samkomulag milli menntmrn. og sveitarfélaga á Snæfellsnesi um að hafinn verði undirbúningur að stofnun framhaldsskóla á norðanverðu Snæfellsnesi. Það verður fljótlega farið að vinna að þessu verkefni og verður þá ráðinn starfsmaður til að annast undirbúninginn. Ráðuneytið mun, eins og ég hef lýst yfir hér á Alþingi, leggja fram það fjármagn á þessu ári sem þarf til þess að standa straum af undirbúningsvinnunni. Það liggur ekki alveg ljóst fyrir hversu mikið fjármagn þetta verður, hversu mikið fjármagn er nauðsynlegt að leggja í þetta, en ég get fullvissað hv. fyrirspyrjanda um að það mun ekki há verkefninu.

Í öðru lagi er spurt hér hvort ráðherra muni tryggja að framhaldsskóli Snæfellinga á Snæfellsnesi taki til starfa haustið 2003 eins og að hefur verið stefnt. Svarið við þessu hefur raunar komið fram opinberlega nú þegar. Samkvæmt samkomulagi við Snæfellinga mun nýr framhaldsskóli taka formlega til starfa í Grundarfirði haustið 2004.

Það er einnig ljóst að hluti af nauðsynlegum aðdraganda stofnunar þessa skóla er að framhaldsdeildirnar starfi áfram og verði aðdragandi að stofnun hans. Það verður tryggt að þær muni gera það.