Stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 13:52:05 (3989)

2003-02-19 13:52:05# 128. lþ. 83.1 fundur 505. mál: #A stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., PBj
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[13:52]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég fagna því að búið sé að taka þessa ákvörðun sem vissulega er mjög gott. Ég minni á að fyrir sjö árum tóku sveitarfélögin við rekstri grunnskóla en ríkið við framhaldsskólanum og þær breytingar hafa orðið á undanförnum árum að framhaldsskóli er ekki lengur eitthvað sem er fjarlægt fyrir hvern og einn að taka heldur er þetta orðið hluti af almennri grunnmenntun.

Ég fagna því sérstaklega að ríkið kemur til móts við þróunina með þeim hætti að koma framhaldsskólum upp sem víðast. Það er auðvitað grundvallarkrafa að menn geti sótt þessa nauðsynlegu menntun hvar sem er á landsbyggðinni. Jafnvel þó að fjarkennsla sé orðin verulegur liður í þessu dugar hún ekki ein sér til. Hún er góð með en það þarf að efla miðstöðvar fyrir fjarkennslu og skóla af þessu tagi sem verða kjarni og aðsetur þeirra sem stunda þetta nám.