Stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:03:43 (3996)

2003-02-19 14:03:43# 128. lþ. 83.2 fundur 524. mál: #A stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:03]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Fyrirspurnin hljóðar svo:

,,Mun ráðherra beita sér fyrir stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ í samráði við heimamenn og leggja fram tímasetta áætlun þar að lútandi?``

Svarið er á þessa leið: Mosfellsbær tók á sínum tíma þátt í stofnkostnaði við byggingu Borgarholtsskóla ásamt Reykjavíkurborg og ríkinu. Jafnframt var gert samkomulag um að nemendur úr Mosfellsbæ ættu aðgang að öðrum skólum í Reykjavík til jafns við Reykvíkinga. Engin ósk hefur komið frá Mosfellsbæ um að þar verði byggður framhaldsskóli og er það mál af þessum sökum ekki á dagskrá.

Hins vegar er ljóst að gera þarf átak í uppbyggingu framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og að því leyti hefur hv. fyrirspyrjandi rétt fyrir sér. Það mál hefur verið í viðræðum við Reykjavíkurborg nú um nokkurn tíma að frumkvæði menntmrh. Það hefur einnig verið rætt við sveitarfélög sem tengjast þessu máli þar sem Reykjavíkurborg hefur óskað eftir því að önnur sveitarfélög kæmu inn í þá mynd og þeim viðræðum er ekki lokið þó að þeim hafi miðað mjög vel áfram nú á síðustu vikum.