Sérhæfing fjölbrautaskóla

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:15:47 (4003)

2003-02-19 14:15:47# 128. lþ. 83.3 fundur 533. mál: #A sérhæfing fjölbrautaskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:15]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Með lögum um framhaldsskóla var gerð umtalsverð breyting á stjórnsýslulegri umgjörð starfsnáms í landinu. Sett var á laggirnar samstarfsnefnd fulltrúa atvinnulífsins um starfsnám á framhaldsskólastigi og skipuð voru 14 starfsgreinaráð sem skulu vinna að tillögugerð um námskrár í starfsnámi hvert á sínu sviði. Þá gera lögin ráð fyrir því að skólanefndir einstakra framhaldsskóla geti sett á fót ráðgjafanefndir með fulltrúum atvinnulífsins í viðkomandi byggðarlagi. Allt var þetta gert, allar voru þessar ráðstafanir til þess að efla samstarf atvinnulífs og skóla til að auka veg starfsmenntunar. Lögin opna þannig fyrir möguleika skólanna til að bjóða upp á menntun sem tengist atvinnulífi næsta nágrennis.

Þannig hefur Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi nýlega skipulagt nám á stóriðjubraut í samstarfi við fyrirtækin á Grundartanga og undirbúningur er að svipuðu námi á Asuturlandi í tengslum við þau uppbyggingaráform sem þar eru og bind ég miklar vonir við að það mál muni fá farsælan framgang. Nám í fiskeldi var um skeið kennt við Fjölbrautaskóla Suðurlands í tengslum við fiskeldi á Kirkjubæjarklaustri. Grunnstig vélstjórnar eru víða í boði, svo og grunndeildir verknámsdeilda í löggiltum iðngreinum. Þá er á vegum einstakra starfsgreinaráða unnið að tillögugerð um nýtt námsframboð í starfsnámi og væntanlega munu skólarnir reyna að nýta sér þetta námsframboð í starfi sínu og það tengjast atvinnulífi viðkomandi svæðis.

En því er ekki að leyna að stundum fást ekki þær undirtektir hjá nemendum sem vonir standa til þegar nýtt nám er annars vegar eins og dæmin hafa sýnt. Má nefna að sjávarútvegsbraut hefur verið í boði við sex framhaldsskóla utan Reykjavíkur undanfarin ár, en ekki hefur reynst unnt að reka hana nema á einum stað á landinu, þ.e. við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Ástæðan er sú að lítil aðsókn hefur verið að þessu námi.

Eins og áður var rakið styður löggjöf um framhaldsskóla eflingu starfsmenntunar sérstaklega. Ef óskir berast, ég tek það fram að ef óskir berast frá framhaldsskólum um að bjóða fram sérhæft starfsnám þá skoðar ráðuneytið það með jákvæðum huga. Þróun námsframboðsins er að talsverðu leyti undir frumkvæði og áhuga heimamanna komið og það er mjög brýnt mál að mínu mati að standa fast við það að búast við og ætlast til frumkvæðis af hálfu heimamanna í þessum efnum og það dæmi sem ég nefndi hér sérstaklega um stóriðjumenntun á Austurlandi er í nánum tengslum við það frumkvæði sem heimamenn hafa haft í þeim efnum.

Skólarnir verða því að leggja fram áætlanir sem sýna að líklegt megi teljast að hægt verði að reka viðkomandi braut og að væntanlega verði svo mikil aðsókn að henni að skólinn geti rekið hana fyrir það fjárframlag sem honum er til þess ætlað.

Það hefur því miður stundum reynst erfitt að byggja upp starfsnámsbrautir sem eru sérhæfðar með tilliti til atvinnuhátta viðkomandi byggðar. Ástæðurnar hafa fyrst og fremst verið þær að ekki hefur verið nægilega mikil eftirspurn eftir náminu. Þá hefur einnig stundum skort á að stuðningur frá atvinnulífi svæðisins við námstilboðið hafi verið nægilegur.

Það er hins vegar mikilvægt að hvetja skóla og atvinnulíf til þess að vera stöðugt vakandi fyrir þeim möguleikum sem löggjöf um framhaldsskóla heldur opnum, að móta í sameiningu skóla- og fyrirtækjanám sem tengist atvinnulífi á viðkomandi stöðum.

Ég vil geta þess sérstaklega, vegna þess sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, Björgvins Sigurðssonar, að besta byggðastefnan væri uppbygging menntunarinnar, að ég tek heils hugar undir það, m.a. vegna þess að fram hafa komið veikleikar í löggiltum iðngreinum úti á landi í smæstu skólunum. Þá hefur ráðuneytið verið að móta hugmyndir um hvernig væri hægt að styðja þessa skóla til þess að halda uppi lögbundnum iðngreinum þegar svo vill til að eftirspurn minnkar verulega. Það er oft mjög brýnt að geta haldið þessu við þannig að menn komist yfir erfiðleikatímabilin sem standa oft ekki nema eitt eða tvö ár og að þá sé hægt að halda náminu við í þeirri von að aðsókn að því aukist síðar.

Ég vil geta þess sérstaklega að námi í löggiltum iðngreinum tengist að sjálfsögðu slagkraftur byggðarlaganna til þess að fást við sinn byggðavanda. Verknámið skiptir því mjög miklu máli fyrir byggðastefnuna og ég hygg að einhugur sé um það á hinu háa Alþingi að framhaldsmenntunin og menntunin almennt sé beinlínis grundvöllur byggðastefnu.