Sérhæfing fjölbrautaskóla

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:20:54 (4004)

2003-02-19 14:20:54# 128. lþ. 83.3 fundur 533. mál: #A sérhæfing fjölbrautaskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:20]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna ummælum hæstv. ráðherra hér rétt áðan um að ráðuneytið vilji styðja við skóla á landsbyggðinni eða í dreifbýlinu til þess að halda uppi námi í löggiltum iðngreinum þó að á bjáti um tíma. Það hefur nefnilega skort ansi mikið upp á það að menn gerðu slíka hluti hér á undanförnum árum. Hér hafa skólayfirvöld á ýmsum stöðum þurft að hrökklast frá því að halda uppi námi í löggiltum iðngreinum á undanförnum árum. Reyndar hefur ekki verið nægilegur skilningur á því að það nám sem um er verið að tala þarna er miklu dýrara en bóklega námið. Þess vegna er full ástæða til þess að taka grannt eftir því sem hæstv. menntmrh. var að segja og fagna því.

Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Ég tel fulla ástæðu til að ræða þessi mál hér. Vitanlega skiptir frumkvæði heimamanna miklu máli og það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að árangur varð af slíku á Akranesi núna fyrir stuttu.