Sérhæfing fjölbrautaskóla

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:22:12 (4005)

2003-02-19 14:22:12# 128. lþ. 83.3 fundur 533. mál: #A sérhæfing fjölbrautaskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:22]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég tek undir það sem fram kom hjá hæstv. ráðherra um að það er ekkert í lögunum sem í rauninni kemur í veg fyrir ýmiss konar starfsnám eða bara nám í framhaldsskólum landsins. Lykilatriðið er að frumkvæði komi frá einstökum skólum og ekki síst því atvinnulífi sem þeir þjóna hverju sinni. Þaðan þarf frumkvæðið að koma.

En í þessu geta verið ákveðnar mótsagnir. Það er eðlilegt og tengist auðvitað byggðastefnu eins og hér hefur komið fram að skólar bjóði nemendum sínum upp á sem fjölbreyttast nám. En þegar aðsókn er hins vegar mjög lítil er sú hætta fyrir hendi að gæðum kennslunnar fari hrakandi. Það þarf auðvitað alltaf að vera útgangspunkturinn í allri kennslu að gæðin séu höfð að leiðarljósi því annars er verið að bjóða nemendum í rauninni falskt nám, þ.e. ef gæðin eru ekki tryggð.

Ég árétta að gæðin þurfa að vera til staðar og að frumkvæði heimamanna, atvinnulífs og skóla er lykillinn að vel heppnuðum starfsmenntaskóla.