Sérhæfing fjölbrautaskóla

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:23:29 (4006)

2003-02-19 14:23:29# 128. lþ. 83.3 fundur 533. mál: #A sérhæfing fjölbrautaskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og þeim hv. þingmönnum sem í umræðunni tóku þátt málefnalega og greinargóða umræðu þar sem fram kom samstaða um mikilvægi þess að undirstaða alvörubyggðastefnu til framtíðar og einkum þess sem getur stöðvað fólksflóttann og byggðahrunið sem átt hefur sér stað í tíð núverandi ríkisstjórnar er öflug menntun og uppbygging kraftmikilla menntastofnana heima í héraði. Vil ég nota þetta tækifæri, herra forseti, til að skora á heimamenn, atvinnulíf byggðanna, svo og menntamálayfirvöld að taka höndum saman og standa að uppbyggingu sérhæfðra starfs- og iðnbrauta í héraði sem ríma við það atvinnulíf sem þar er rekið. En til að svo megi verða og til að þannig til takist að árangur náist, sem skiptir verulegu máli í uppbyggingu og viðgangi byggðanna, þarf að koma til pólitískt frumkvæði og vilji af hálfu ráðuneytisins til að virkja þann kraft sem víða liggur heima í byggðunum og er til staðar ef menn hafa það á tilfinningunni að fjármagn og skilningur fáist hjá menntamálayfirvöldum nái menn höndum saman við atvinnulíf byggðanna og þá sérhæfðu atvinnu sem þar er víða rekin og mundi nýtast skólunum sérstaklega vel til að byggja upp til lengri tíma kraftmikið og gott nám sem eykur bæði vöxt og viðgang byggðanna svo og skólanna sjálfra.