Samræmd stúdentspróf

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:39:18 (4013)

2003-02-19 14:39:18# 128. lþ. 83.4 fundur 541. mál: #A samræmd stúdentspróf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli mínu er það svo að í raun er tveggja ára aðdragandi að þessari breytingu þannig að hún komi til fullra framkvæmda. Og prófið sem haldið verður í janúar 2004 er valkvætt.

Ég vil hins vegar að það komi mjög skýrt fram í þessari umræðu að athugasemd hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um miðstýringu og hættu á að vegið yrði að sjálfstæði skólanna er byggð á fullkomnum misskilningi. Það er einmitt tenging á milli þessa tveggja sem ég vona að hv. þm. geri sér grein fyrir. Eftir því sem sjálfstæði grunnskólanna hefur verið aukið og eftir því sem sjálfstæði framhaldsskólanna er aukið vex þörfin á því að hafa mat á skólastarfinu og enginn hefur látið sér detta í hug að mæla gegn því. Þess vegna hefur mat og eftirlit skólanna sjálfra með eigin starfi og eftirlit ráðuneytisins með starfi skólanna verið aukið. Og hluti af þessu mati er að sjálfsögðu að búa til próf, samræmd próf utan skólanna, sem er sameiginlegur mælikvarði á starfsemi skólanna.

Þessu gera sér allir grein fyrir og á þessu byggist það, hv. þm., að meiri hluti Evrópuþjóða notast við slíkt mat, notast við slíkt samræmt mat. Meiri hluti Evrópuþjóða er með sambland af skólaprófum og samræmdum prófum til þess að hægt sé að framkvæma þetta mat. Raunar er svo að þrjú Evrópulönd eru eingöngu með utanaðkomandi próf, þó ég sé ekki að mæla með því hér.

Ég held að það sama gildi um grunnskólann eins og framhaldsskólann að hér er verið að búa til í samræmi við vaxandi sjálfstæði skólanna matskerfi til þess að sjá hvernig skólastarfinu reiðir fram.

Einnig er mikilvægt að taka það fram vegna þeirrar umræðu sem var áðan að þessi samræmdu próf í framhaldsskólunum verða í þremur undirstöðugreinum og það eru allir sammála um að það sé mjög mikils virði að skólarnir setji sér sameiginleg markmið í þessum þremur undirstöðugreinum.