Sementsverksmiðjan hf.

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:49:39 (4017)

2003-02-19 14:49:39# 128. lþ. 83.5 fundur 554. mál: #A Sementsverksmiðjan hf# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:49]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég hefði viljað fá snarpari undirtektir hjá hæstv. iðnrh. og að það væri vilji og stefna ríkisvaldsins að styrkja stöðu Sementsverksmiðjunnar og standa að henni með þeim hætti að hún stæði örugglega af sér þessa samkeppni sem kemur nú erlendis frá með undirboðum, hvort sem þau eru lögleg eða ekki. Það er ljóst að líði sementsframleiðsla hér á landi undir lok þá verðum við ofurseld innfluttri einokun því að í raun er hér ekki pláss fyrri marga aðila á sementsmarkaðnum og ég tala nú ekki um erlenda aðila.

Þess vegna skiptir staða Sementsverksmiðjunnar gríðarlegu máli bæði fyrir þjóðina alla og einnig líka störfin og verkefnið á Akranesi.

Ég vil og benda á að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, eigum þingmál í iðnn. og ég skora á hv. nefnd að ljúka meðferð þess sem allra fyrst þannig að málið komi aftur inn í þingið.