Embætti umboðsmanns neytenda

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:57:27 (4021)

2003-02-19 14:57:27# 128. lþ. 83.6 fundur 532. mál: #A embætti umboðsmanns neytenda# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef margoft lýst yfir mikilvægi þess að neytendavernd sé í hvívetna tryggð. Í þessu sambandi er rétt að nefna að oft hefur komið upp umræða um nauðsyn þess að sett verði á stofn sérstakt embætti umboðsmanns neytenda hér á landi.

Svo sem kunnugt er hefur Samkeppnisstofnun haft eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og í því sambandi hefur verið starfrækt sérstakt svið hjá stofnuninni sem fer með þessi mál. Það fyrirkomulag að hafa samkeppnisrétt og þann hluta neytendaverndar sem lýtur að óréttmætum viðskiptaháttum í einni og sömu stofnun er ekki óþekkt í viðskiptalöndum okkar. Þannig er þessum málaflokkum komið fyrir, svo dæmi sé nefnt, á Englandi og í Frakklandi. Í umræðu um það hvort setja beri á stofn embætti umboðsmanns neytenda hefur gjarnan verið vísað til þess fyrirkomulags á Norðurlöndum að þar starfi sérstakur umboðsmaður neytenda auk opinberra neytendastofnana og frjálsra neytendasamtaka.

VI. kafli samkeppnislaga fjallar um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og inniheldur hann í öllum aðalatriðum sömu ákvæði og markaðsfærslulög annarra Norðurlanda gera, þar með talið eftirlit með viðskiptaháttum og notkun staðlaðra samningsskilmála. Dæmin hafa einnig sýnt að afgreiðsla mála hjá Samkeppnisstofnun hefur verið í samræmi við afgreiðslur neytendastofnana Norðurlandanna. Samkeppnisstofnun framfylgir á sama hátt og neytendastofnanir Norðurlandanna einnig ýmsum sérlögum sem taka til verndar neytenda og sett hafa verið í samræmi við skuldbindingar á grundvelli EES-samningsins. Auk þess tekur Samkeppnisstofnun þátt í samstarfi neytendastofnana Norðurlanda og er að hluta til aðili að samstarfi umboðsmanna neytenda.

Í lögunum er gert ráð fyrir því að stofnunin geti haft frumkvæði að viðræðum við fulltrúa hinna ýmsu aðila í viðskiptalífinu í þeim tilgangi að hafa almenn áhrif á notkun staðlaðra viðskiptamála, t.d. hjá greiðslukortafyrirtækjum eða flugfélögum svo aðeins tvö dæmi séu nefnd. En á hinum Norðurlöndunum er þetta einmitt eitt meginhlutverk umboðsmanna neytenda, þ.e. að veita fyrirtækjum aðhald gegn óheftri markaðsfærslu. Hins vegar hefur skortur á fjárframlögum til stofnunarinnar orðið til þess að hún hefur ekki getað sinnt slíkum málum með þeim hætti sem hún hefði helst kosið. Hingað til hefur Samkeppnisstofnun þó, eins og áður segir, tekið á þessum málum sem komið hafa þar til meðferðar með þeim hætti sem samkeppnislögin mæla fyrir um.

Ég tel ljóst að neytendur eða viðskiptavinurinn muni leika sífellt stærra hlutverk og stjórnmál munu snúast æ meira um að styðja við aðgerðir fyrirtækja og stjórnvalda í þágu neytenda. Það er því ljóst að allt viðskiptaumhverfi hefur tekið stakkaskiptum á Íslandi á liðnum árum, bæði fyrir fyrirtækin og neytendur. Auðvitað verða stjórnvöld eins og aðrir í samfélaginu að huga að því þegar miklar breytingar verða í því umhverfi sem þau starfa. Ég tel að það eigi við um neytendamál eins og aðra málaflokka á sviði stjórnsýslunnar.

Varðandi spurningu hv. 3. þm. Suðurl. hvort standi til að koma á fót embætti umboðsmanns neytenda vil ég því segja að það hefur ekki í reynd verið á dagskrá hingað til, ef svo má að orði komast. Vegna allra þeirra breytinga sem hafa þó átt sér stað á undanförnum árum og eru enn þá í þróun á sviði neytendaverndar hér á landi og í nágrannaríkjum okkar þá getur vel verið rétt að fara út í nánari athugun á kostum þess og göllum að stofnsetja slíkt embætti á Íslandi. Auk þess yrði hugað að því hvort þörf sé á öðrum umbótum á sviði neytendaverndar, hvort þær rúmist innan núverandi skipulags eða hvort þær krefjist skipulagsbreytinga að einhverju leyti.

Aðeins eftir slíka nánari yfirferð og skoðun er því hægt að svara spurningu hv. 3. þm. Suðurl. með afgerandi hætti. Ég vil þó þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir áhuga hans á málefnum neytenda, en innan þess málaflokks veit ég að fer fram mikið og gott starf af hálfu fjölmargra aðila sem því miður hefur ekki tekist að gera nægilega sýnilegt, hvorki almenningi né þingmönnum hér á landi. Úr því þarf að bæta.

Að lokum er rétt að vekja sérstaka athygli á því að hvað sem líður fyrirkomulagi sem haft er á eftirliti með neytendavernd þá ræður að lokum neytandinn sjálfur mestu um hvernig til tekst. Opinbert eftirlit getur aldrei komið í staðinn fyrir vökul augu og dómgreind hins almenna kaupanda.